Girðing á Holtavörðuheiði dugar ekki til

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, á fundinum í dag.
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, á fundinum í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir mikilvægt að stjórnvöld setji á fót farsóttarstofnun til að takast á við smitsjúkdóma framtíðarinnar. 

Spurður út í viðbrögð stjórnvalda við hugmynd hans um stofnunina, sem fyrst var greint frá á síðasta ári, segir Kári að þau hafi verið í eins konar sjokki, sem sé eðlilegt. Stjórnvöld hafi verið að bregðast við stórum vanda og nota það litla fé sem til er til að glæða atvinnulífið nýju lífi. Þetta verkefni bíði frekar stjórnvalda þegar komi fram á haust.  

„Við verðum að setja eitthvað svona saman. Það er ekki hægt að stóla á það að svona einkafyrirtæki verði til þess að takast á við þetta,“ segir Kári.

Ráðherrarnir Bjarni Benediktson og Katrín Jakobsdóttir ásamt Þórólfi Guðnasyni sóttvarnalækni …
Ráðherrarnir Bjarni Benediktson og Katrín Jakobsdóttir ásamt Þórólfi Guðnasyni sóttvarnalækni á fundinum í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hann segir erfitt að gera uppi á milli barnanna sinna þegar hann er beðinn um að nefna það sem honum fannst standa upp úr á fundi dagsins þar sem kynntar voru niðurstöður rannsókna vísindamanna fyrirtækisins á Covid-19. Hann segir þá hafa unnið dag og nótt við rannsóknirnar og staðið sig með mikilli prýði. 

„Mér finnst mjög athyglisvert hvernig við höfum búið til forsendur fyrir almennilegri smitrakningu. Að raðgreina veiruna úr hverjum einasta manni sem hefur sýkst og nýta síðan stökkbreytingarmynstrið til að rekja hvernig veiran breiðist út,“ segir Kári.

„Í dag getum við sagt nokkurn veginn nákvæmlega hver smitaði hvern og hverjir smituðust af sama einstaklingnum, það er að segja hverjir mynda eina einingu. Við getum kallað það hópsmit þar sem allir hafa sýkst af sama afbrigði veirunnar. Ef Pétur og Jón hafa sýkst og við erum að reyna að finna út hvort var það Pétur sem smitaði Jón eða Jón Pétur. Ef Pétur er með eina stökkbreytingu í viðbót við það sem finnst í Jóni er alveg ljóst að Jón hefur smitað Pétur. Það er ósköp einföld lógík,“ greinir hann frá.

Hilma Hólm og Erna Ívarsdóttir ræða við Kára Stefánsson á …
Hilma Hólm og Erna Ívarsdóttir ræða við Kára Stefánsson á fræðslufundi Íslenskrar erfðagreiningar fyrr í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hann segir það mjög athyglisvert að sjá hvernig Kristján Eldjárn Hjörleifsson doktorsnemi og Sölvi Ragnarsson stærðfræðingur settu saman aðferð við að reyna að skilja þriðju bylgjuna og nýttu sér til þess m.a. raðgreiningar- og smitrakningargögn. Hann segir vinnu Daníels Fannars Guðbjartssonar og Þórunnar Á. Ólafsdóttur ónæmisfræðings mjög flotta en þau rannsökuðu frumubundið ofnæmi og mótefnasvar við veirunni. Einnig segir hann rannsókn þeirra Hilmu Hólm hjartalæknis og Ernu Ívarsdóttur tölfræðings á langtímaafleiðingum veirunnar afar athyglisverða.

„Munurinn á annars vegar þessum miklu einkennum sem er það sem sjúklingurinn kvartar undan og hins vegar þessum örfáum hlutum sem hægt er að mæla bendir til þess að áhrif sýkingarinnar á andlegt ástand fólks virðist skipta mjög miklu máli,“ segir hann.

Sóttvarnalæknir á fundinum í dag.
Sóttvarnalæknir á fundinum í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Nöldrar“ í stjórnvöldum um farsóttarstofnum

„En það sem stendur upp úr er mikilvægi þess að vera með vísindavinnu á þessum level í okkar samfélagi. Að vera með þá getu sem þarf bæði hvað snertir tæki og síðan mannskap til að geta tekið á móti svona verkefni eins og þessu. Ég er búinn að vera að nöldra í stjórnvöldum í eitt ár að setja upp farsóttarstofnun sem ég held að við þurfum á að halda og ég held að öll lönd í heiminum þurfi á að halda núna vegna þess að þegar svona lagað sprettur upp þá verðum við að geta tekist á við það,“ heldur Kári áfram.

Hann segir veirur alltaf hafa sprottið upp í heiminum en ástæðan fyrir því að þessi hafi orðið svona stórt vandamál sé sú hversu heimurinn er orðinn lítill. „Menn eru að færast á milli með svo miklum hraða og í svo miklum fjölda að ef svona veirupest sprettur upp á einum stað þá kemurðu ekki í veg fyrir að hún breiðist út um heiminn með því að setja upp smá girðingu uppi á Holtavörðuheiði. Þetta er orðinn gífurlegur vandi þegar svona lagað kemur upp og öll lönd í þessum heimi verða að vera reiðubúin til að takast á við það.“

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, á fundinum í dag.
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, á fundinum í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Tryllingslega gaman“

Kári viðurkennir að lokum hversu ofboðslega gaman honum hafi fundist að vinna að rannsóknum á kórónuveirunni. „Það er búið að verið alveg tryllingslega gaman. Eftir að hafa verið búinn að vinna við læknisfræðirannsóknir í 45 ár, að alltaf þegar maður byrjar á nýjum sjúkdómi spyr maður sig hvað er búið að gera í þessum sjúkdómi. Allt í einu fær maður í fangið sjúkdóm sem ekkert er vitað um. Það er ekki hægt að finna neitt meira spennandi,“ segir hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert