Haldi mannamótum í lágmarki

Fólk á leið í sýnatöku vegna Covid-19.
Fólk á leið í sýnatöku vegna Covid-19. mbl.is/Kristinn Magnússon

Almannavarnir og sóttvarnalæknir ráðleggja öllum að forðast mannmarga staði, halda mannamótum í lágmarki og ferðast ekki á milli landshluta nema brýna nauðsyn beri til. Almannavarnir ítreka í tilkynningu að nú sé mikilvægt að við bregðumst öll við af krafti svo ekki komi til frekari útbreiðslu á næstunni.

„Næstu dagar munu skera úr um hvort við erum að fá umfangsmeira hópsmit eða jafnvel útbreitt samfélagslegt smit. Því er mikilvægt að fara mjög varlega,“ segir þá í tilkynningunni.

Þeim sem greinst hafa með Covid-19 hefur fjölgað hratt undanfarna daga og hafa margir bæst í hóp einstaklinga í sóttkví og einangrun á síðustu dögum. Nú eru 97 einstaklingar í einangrun og 386 einstaklingar í sóttkví. Ekki er ólíklegt að fleiri bætist í þessa hópa á næstu dögum.

„Göngudeild Landspítalans er þessa dagana með rúmlega 100 manns í umsjá og í góðu samstarfi við Barnaspítala Hringsins. Með aukinni útbreiðslu eykst álagið þar og eins og gefur að skilja er óvissa með framhaldið næstu daga,“ segir í tilkynningunni.

Allir á heimilinu verða að fara í sóttkví

Í tilkynningunni kemur einnig fram að samkvæmt reglum um sóttkví þurfa allir sem dvelja á sama heimili að vera í sóttkví ef einn er í sóttkví. Ekki er lengur heilmilt að einhver dvelji í sínu herbergi í sóttkví á meðan aðrir á heimilinu fara út.  

Að lokum segir í tilkynningunni að við minnstu einkenni sem gætu bent til Covid-19 sé mikilvægt að fara strax í sýnatöku. 

Helstu einkenni Covid-19 eru: 

Hiti, hálssærindi, hósti, andþyngsli, þreyta, slappleiki, bein- og vöðvaverkir, meltingarfæraeinkenni (sérstaklega hjá börnum) og skyndileg breyting eða tap á bragð- og lyktarskyni.

mbl.is