Ísland væntanlega meðal öruggra landa

Talið er að aðeins átta lönd verði á lista bresku ríkisstjórnarinnar yfir örugg lönd til að ferðast til þegar reglum verður breytt 17. maí. Ísland er eitt þeirra ásamt Ísrael, Gíbraltar, Möltu, Írlandi, Austurríki, Nýja-Sjálandi og Bandaríkjunum.

Þetta kemur fram á breska ferðavefnum Travel Weekly í morgun og vísað í frétt Sunday Times í gær. Mark Tanzer, framkvæmdastjóri Abta, Samtaka ferðaþjónustunnar í Bretlandi, segir að búast megi við að þetta verði hægfara þróun, það er að stjórnvöld muni opna hægt fyrir ferðalög til annarra landa. 

Tanzer segir í samtali við Travel Weekly að allir vonist til þess að opnað verði sem fyrst og að sumarið verði gott ferðasumar en það verði ekki þannig strax 17. maí. 

Í greiningu fyrrverandi stjórnanda hjá British Airways, Robert Boyle, kemur fram að væntanlega verði flest ríki Evrópu á gulum lista sem þýðir að þeir sem ferðast þangað þurfa að fara í heimasóttkví í 10 daga eftir komuna til Bretlands að nýju. Eða jafnvel á rauðum lista sem þýðir að þeir sem koma þaðan eru skikkaðir í sóttkví á hóteli sem kostar 1.750 pund á hvern einstakling. Það svarar til rúmlega 300 þúsund króna. 

Þetta þýðir að helstu áfangastaðir Breta yfir sumarið, Spánn, Grikkland, Ítalía og Kýpur, verði gulir við næstu afléttingu, það er 17. maí en eiga möguleika á að verða grænir fyrir næstu afléttingu þar á eftir, 28. júní. 

Sjá nánar hér

mbl.is