Mikil óvissa á Landspítalanum

Landspítalinn í Fossvogi.
Landspítalinn í Fossvogi. Ljósmynd/mbl.is

Mikil óvissa er á Landspítalanum vegna fjölgunar smita úti í samfélaginu. Stærstur hluti þeirra 350 starfsmanna spítalans sem eiga eftir að fá bólusetningu við kórónuveirunni verður bólusettur á morgun.

„Það er mikil óvissa. Það eru blikur á lofti og maður veit ekki í hvora áttina þetta ætlar að fara. Við þurfum að sjá hve mikið af smitum dagsins hefur verið í sóttkví,“ segir Hildur Helgadóttir, verkefnastjóri hjá farsóttarnefnd Landspítala, og bætir við að nóg sé að gera á Covid-göngudeildinni. Þar eru um 100 í eftirliti. Þrír liggja inni á spítalanum með Covid-19, þar af er einn í öndunarvél.

Heilbrigðisstarfsfólk á Landspítalanum.
Heilbrigðisstarfsfólk á Landspítalanum. Ljósmynd/Landspítalinn

Stóri hluti bólusettur á morgun

Rúmlega 6.000 manns starfa á Landspítalanum og að sögn Hildar eiga um 350 manns eftir að fá bólusetningu. Langstærsti hluti þeirra verður bólusettur á morgun. 

Fyrr í mánuðinum ákváðu viðbragðsstjórn og farsóttarnefnd að færa spítalann af hættustigi yfir á óvissustig í ljósi færri smita. Hildur segir að ekkert hafi verið rætt um að færa spítalann aftur yfir á hættustig vegna stöðunnar sem er uppi núna. „Við erum eins og aðrir að átta okkur á stöðunni eftir helgina og bíða og sjá hvað gerist í dag,“ segir hún og tekur fram að engu verði breytt í dag.  

mbl.is