Sex þjálfarar Víkings í sóttkví

Sex þjálfarar hjá knattspyrnufélaginu Víkingi eru komnir í sóttkví, þar af tveir vegna beinna tengsla við einstakling af leikskólanum Jörfa.

Hinir fjórir eru starfsmenn skóla eða frístundaheimila í hverfinu og hafa verið sendir í sóttkví af yfirmönnum sínum til að gæta fyllsta öryggis. Ekkert smit hefur greinst innan veggja félagsins að því er segir í tilkynningu á Facebook-síðu Víkings.

Félagið óskaði eftir svörum frá smitrakningarteyminu við því hvort leggja ætti niður æfingar í nokkra daga meðan staðan er endurmetin.

Svörin voru mjög skýr – engin smitrakning á sér stað í tengslum við starfsemi félagsins og því ekki ástæða til að loka Víkinni frekar en öðrum skólum eða leikskólum í hverfinu að því er segir á Facebook. Æfingar halda því áfram en án allra búningsklefa. Það er hins vegar ákvörðun knattspyrnufélagsins að fella niður allan rútuakstur þessa vikuna.

mbl.is