Á bráðamóttöku með stunguáverka

Maður var fluttur á bráðamóttöku Landspítalans með stunguáverka á öðrum tímanum í nótt en árásarmaðurinn er í haldi lögreglunnar. Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar. Þar kemur ekki fram hvar árásin var gerð annað en að lögreglumenn af stöð 4 sinntu verkefninu en hennar umdæmi er Árbær, Grafarvogur og Mosfellsbær. 

Lögreglan á stöð 3, en hún sinnir Breiðholti og Kópavogi, handtók annan mann vegna líkamsárásar og hótana snemma í gærkvöldi og gistir hann fangageymslu. 

Þriðja líkamsárásin í umdæmi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu var í umdæmi stöðvar 1, sem sinnir Seltjarnarnesi, Vesturbæ, miðbæ og Austurbæ, um átta í gærkvöldi. Hún er sögð minni háttar í dagbókinni en gerandi var farinn er lögregla kom á vettvang. Vitað er hver hann er. 

Lögreglan vísaði ölvuðum manni út af hóteli í miðborginni í gærkvöldi en hann var óvelkominn þangað. Brotist var inn í geymslu á heimili í gærkvöldi og annars staðar á höfuðborgarsvæðinu var rafhlaupahjóli stolið. Í hvorugu tilvikinu er vitað hverjir voru þar að verki. 

Tveir voru stöðvaðir fyrir akstur undir áhrifum vímuefna og var annar þeirra einnig án ökuréttinda. 

mbl.is