Eitrað með rottueitri í garði fjölskyldu

Theodór og Íris ásamt einum hunda sinna.
Theodór og Íris ásamt einum hunda sinna. Ljósmynd/Aðsend

Mat sem eitraður hafði verið með rottueitri var dreift í garð hjóna sem rækta hunda í Grafarvogi aðfaranótt sunnudags. Hjónin eiga þrjú ung börn sem leika sér í garðinum og var eitur meðal annars á leikföngum þeirra í garðinum. Hjónin hafa boðið eina milljón króna í verðlaun fyrir upplýsingar sem leiða til að málið upplýsist.

„Það var einhver, augljóslega óheilbrigður, aðili sem kom og dreifði mat og rottueitri í garðinn hjá mér og yfir leiksvæði barnanna minna. Börnin mín voru að leika sér í honum bara fyrir helgi, það var enn þá dót úti í garði,“ segir Theodór Bjarnason, fjölskyldufaðirinn.

Hundar Írisar og Theodórs sem átu eitraðan mat.
Hundar Írisar og Theodórs sem átu eitraðan mat. Ljósmynd/Aðsend

Theodór segir að kona hans, Íris, hafi verið ein heima um helgina þar sem hún var að læra fyrir próf. Á meðan fór hann með börnin úr bænum ásamt tveimur hundum. Tveir hundar voru eftir heima, hvolpafull tík og verðlaunarakki.

„Á sunnudagsmorguninn þegar hún hleypti hundunum út tekur hún eftir að hundarnir rjúka út á ákveðið svæði og byrja að éta eitthvað. Henni þótti það skrítið þar sem það er vanalega ekkert að éta fyrir þá úti í garði. Hún lítur á þetta og þá er þarna skæðadrífa af mat og rauðu rottueitri út um allt,“ segir Theodór. Hann segir að staðfesting hafi fengist frá meindýraeyði að um rottueitur sé að ræða.

Matur og rottueitur í garðinum.
Matur og rottueitur í garðinum. Ljósmynd/Aðsend

Íris fór beint inn með hundana og lét þá éta salt, sem er gert til að láta hundana kasta upp. Þá fór hún með hundana til dýralæknis, sem tók blóðprufur og gaf hundunum lyfjakol og mótefni. „Svo verðum við bara að bíða og sjá, það tekur hundana sex til tíu daga að drepast, ef þeir drepast,“ segir Theodór.

Hann segir hundana vera í hættu í þrjár vikur eftir að hafa étið eitraðan mat, en það ætti að koma fram á fyrstu sex til tíu dögunum. Rottueitur veldur innvortis blæðingum.

Gekk á eftir lögreglunni

Hann segir lögregluna hafa sýnt málinu vanvirðingu til að byrja með en hann hafi gengið á eftir því að málinu yrði tekið alvarlega. „Ég sagði við þá, hvað ef börnin mín hefðu étið þetta, hvert hefði þá verið viðhorfið hjá ykkur?“ segir Theodór. Börn Theodórs og Írisar eru þriggja, átta og ellefu ára.
Rottueitur sem fannst í garðinum.
Rottueitur sem fannst í garðinum. Ljósmynd/Aðsend

Ákveðnir aðilar grunaðir

Theodór segist gruna ákveðna aðila verknaðinn. Hann geti ekki sannað með vissu hverjir séu ábyrgir en hann hafi vísbendingar, meðal annars úr öryggismyndavélum, sem nú eru til skoðunar hjá lögreglu. 

Málið telur hann tengjast öðru máli sem Íris hefur innsýn í. Hjónin vilja ekki tjá sig frekar um það mál enda enn til skoðunar.

„Rottueitrið er enn þá í garðinum, það er ekki hægt að hreinsa hann alveg. Svo að garðurinn er eitraður að okkur skilst í alla vega mánuð,“ segir Theodór og segist hafa áhyggjur af köttum sem gætu farið í garðinn.

Theodór segir börnin sín hrædd, bæði um sig og hundana sína.

mbl.is