Lítur bjartsýnum augum á síðari hluta árs

Bjarni Benediktsson telur að síðari hluti ársins geti verið tímabil …
Bjarni Benediktsson telur að síðari hluti ársins geti verið tímabil viðspyrnu og viðsnúnings í efnahagslífinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefur trú á því að síðari hluti ársins geti verið tímabil viðspyrnu og viðsnúnings í efnahagslífinu, í ljósi bólusetningaráætlunar stjórnvalda. Stefnt er að því að meirihluti þjóðarinnar verði bólusettur fyrir 1. júlí og takmörkunum innanlands verði aflétt um leið.

Aðgerðir á landamærunum verða hertar á næstu dögum og verður frumvarp þess efnis lagt fram á þingi á morgun. 

„Við viljum vegna reynslunnar herða enn frekar á landamærunum, í þeim tilgangi að fá skjól til að ljúka bólusetningu þjoðarinnar og eins til þess að auka líkurnar á því að við getum létt á innanlandstakmörkunum,“ segir Bjarni í samtali við mbl.is.

Telur að breið sátt geti náðst um aðgerðirnar

Hann telur að náðst geti nokkuð breið sátt um þessa stefnumörkun, sem hafi verið einkennandi fyrir aðgerðir ríkisstjórnarinnar hingað til.

Spurður hvort hægt sé að búast við því að ferðaþjónustan skili jafnmiklu til samfélagsins og fjárlögin gera ráð fyrir segir Bjarni:

„Það verður auðvitað að viðurkennast að við lifum mjög mikla óvissutíma en engu að síður gerum við ráð fyrir að geta bólusett meginþorra landsmanna fyrir mitt ár og það er að ganga eftir. Það eykur líkurnar á því að við náum að lágmarka samdrátt í neyslu innanlands og um leið eykur það líkurnar á því að við endurheimtum að minnsta kosti hluta af ferðamönnum áður en mjög um langt líður.“

Þótt það gerist ekki á næstu vikum segir Bjarni líkur á því að aukin ferðalög til landsins samhliða minni takmörkunum fari vaxandi með hverjum mánuðinum núna.

Er líklegt að ferðagjöfin verði reynd aftur?

„Já, ég hef góða trú á því,“ segir hann. Ráðherra ferðamála og nýsköpunar er með þau mál til skoðunar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert