Tillögu um snjallvæðingu grunnskóla vísað frá

Hildur Björnsdóttir borgarfulltrúi.
Hildur Björnsdóttir borgarfulltrúi.

„Það er miður að tillagan fái ekki brautargengi hér í dag. Það er miður að stafræna vegferðin eigi að hefjast inni í yfirbyggingunni – í viðmóti fyrir foreldra og stafrænum ferlum fyrir starfsfólk og gríðarlegri fjölgun opinberra starfsmanna. Við Sjálfstæðismenn myndum vilja hefja byltinguna inni á gólfi í skólunum, hjá börnunum, þar sem breytingin gæti stuðlað að aukinni tæknifærni bæði nemenda og kennara. Aukinni sköpun og umhverfi þar sem öll börn fá jöfn tækifæri til að þróa ólíka hæfileika – umhverfi þar sem við virkjum frumkvöðulinn í barninu.“

Þetta sagði Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og tillöguflytjandi, í borgarstjórn í dag við það tilefni að meirihluti borgarstjórnar vísaði tillögu Sjálfstæðisflokks um snjallvæðingu á grunnskólastarfi í Reykjavík frá.

Hildur lagði annars vegar til að í hverju hverfi borgarinnar yrðu settar upp sköpunarsmiðjur (Fab Lab), sem samnýttar yrðu af grunnskóla og almenningi innan hverfa og hins vegar styrkveitingar til allra grunnskóla í Reykjavík, óháð rekstrarformi, til uppsetningar snjallstofa. Tillagan fól í sér að út­færsla snjallstofa yrði á hönd­um skóla­stjóra í hverj­um skóla. 

„Það er óhjákvæmilegt að nefna, að í umræðum hér í dag hefur hríslast um mann svolítil ónotatilfinning – mörg rauð flögg. Stafræna umbreytingin er mikilvæg – en því miður virðist hún lítt útfærð, óskilgreind og fremur frasakennd,“ sagði Hildur í borgarstjórn.

Í greinargerð með tillögunni segir að ætli Ísland sér að vera meðal fremstu þjóða hvað varðar menntun barna og ungmenna þurfi menntakerfið að undirgangast breytingar.

Hér má lesa tillöguna í heild sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert