Vinkonan erfði allt – fjölskyldan ekkert

Dómhús Hérðasdóms Reykjavíkur.
Dómhús Hérðasdóms Reykjavíkur. Ljósmynd/Þór

Vinkona aldraðrar konu sem lést í júlí árið 2019 erfir samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur allar hennar eignir, hverju nafni sem þær nefnast. 

Börn systkina konunnar sem lést, ásamt barni sambýlismanns hennar heitins, höfðuðu mál gegn dánarbúinu þar sem farið var fram á að erfðaskrá konunnar yrði dæmd ógild. Konan sem lést í júlí hafði ritað undir erfðaskrá í apríl sama ár. Var hún skrifuð af lögmanni og vottuð af tveimur arfleiðsluvottum. Í erfðaskránni lét hún téðri vinkonu sinni eftir allar sínar eigur, en fram kemur að það hafi verið lausafé og íbúð að verðmæti um 30 milljónir.

Fram kemur í dóminum að konan sem lést hafi ekki átt neina lögerfingja, né heldur maðurinn sem hún tók saman við seint á ævinni. Konurnar bjuggu í sama húsi og tókst með þeim náinn vinskapur. 

Börn vinkonu hinnar látnu kölluðu hana ömmu sína, og eyddi hún jólunum og fjölskylduhátíðum með fjölskyldu vinkonu sinnar í yfir 30 ár. Þá var vinkona hinnar látnu skráð sem tengiliður í samskiptabók heimahjúkrunar og hjá Securitas þar sem hún var með neyðarhnapp. Var andlát konunnar fyrst og fremst tilkynnt vinkonunni, sem sá um að auglýsa og halda utan um útför. 

Krafa sóknaraðila var byggð annars vegar á að formlegir annmarkar væru á vottorði arfleiðsluvotta og hins vegar á því að hin látna hefði ekki haft arfleiðsluhæfi þegar hún undirritaði erfðaskrána.

Ekki var fallist á málflutning sóknaraðila og var kröfu um ógildingu erfðaskrár hafnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert