WOW-mál hluti ástæðu forstjóraskipta

Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

Athugasemdir í skýrslu Ríkisendurskoðunar, varðandi aðkomu Samgöngustofu að starfsemi og rekstri WOW air í aðdrag­anda gjaldþrots flug­fé­lags­ins í mars 2019, eru bæði sláandi og í samræmi við það sem starfsfólk í samgönguráðuneytinu varð áskynja. Slappleiki Samgöngustofu í aðdraganda gjaldþrots WOW air er hluti ástæðu þess að ákveðið var að auglýsa starf forstjóra árið 2019.

Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis fjallaði um skýrsluna á fundi sínum í morgun.

Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra segir í samtali við mbl.is að Samgöngustofa hafi ekki sinnt fjárhagslegu eftirliti nægilega vel og að fyrst hafi verið vakin athygli á því árið 2017. Ráðuneytið hafi frá þeim tíma fylgst með því hvort Samgöngustofa væri að framfylgja eftirliti sínu eins og átti að gera.

„Annars vegar strax frá haustinu 2017 og síðan með skipan ráðherranefndar og eftirfylgni þessara mála á árinu 2018. Það endaði með því að ráðuneytið sendi tilmæli til Samgöngustofu um tilteknar breytingar á verklagi. Mér sýnist þær koma mjög skýrt fram í þessari skýrslu,“ segir Sigurður Ingi.

„Það er sláandi að sjá það en alveg ljóst að á þessum tíma var það rétt mat hjá ráðuneytinu að verklag Samgöngustofu var ekki ásættanlegt sem við komum í rétt form,“ segir Sigurður Ingi.

Frá því hafi Samgöngustofa ráðist í breytingar og eigi nú að vera í tilbúin að sinna fjárhagslegu eftirliti flugfélaga.

„Ég hef engar ábendingar um annað en að það sé í góðu standi núna. Við munum taka ábendingar Ríkisendurskoðunar til okkar og ganga úr skugga um með formlegum hætti,“ segir ráðherra.

Jón Gunn­ar Jóns­son var skipaður for­stjóri Sam­göngu­stofu sumarið 2019 en auglýst var eftir forstjóra þótt Þórólfur Árnason, þáverandi forstjóri, hefði ekki sagt starfi sínu lausu. Sigurður Ingi segir að mál WOW air hafi þar spilað inn í:

„Það var heildstætt mat sem réð því að ég ákvað að auglýsa. Þetta var mál var auðvitað hluti af því heildstæða mati.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert