Andlát: Kristófer Már Kristinsson leiðsögumaður

Kristófer Már Kristinsson.
Kristófer Már Kristinsson.

Kristófer Már Kristinsson, leiðsögumaður og kennari, lést aðfaranótt sl. mánudags, 72 ára að aldri. Hann var um tíma varaþingmaður fyrir Bandalag jafnaðarmanna og blaðamaður og fréttaritari Morgunblaðsins í Brussel.

Kristófer var fæddur í Reykjavík 3. ágúst 1948 og ólst þar upp í Kleppsholtinu. Foreldrar hans eru Guðmundur Kristinn Magnússon, stýrimaður og verkstjóri, og Ágústa Sigríður Kristófersdóttir, húsfreyja og starfsmaður heimilishjálparinnar í Reykjavík. Þau eru bæði látin.

Kristófer lauk stúdentsprófi frá MH og nam kennslu- og uppeldisfræði við Kennaraháskóla Íslands. Hann lauk leiðsöguprófi frá Ferðamálaskóla Íslands, BA-prófi í íslensku og MSc-prófi í umhverfis- og auðlindafræði frá Háskóla Íslands.

Hann stundaði almenna verkamannavinnu á yngri árum, var á sjó á fiskiskipum og fraktskipum og verkstjóri við Vinnuskóla Reykjavíkur. Að loknu kennaraprófi kenndi hann við Breiðholtsskóla og Ármúlaskóla. Hann var kennari við Héraðsskólann í Reykholti á árunum 1973 til 1984, síðar framkvæmdastjóri Bandalags jafnaðarmanna. Hann var í eitt ár fréttaritari Rúv í Brussel, fréttaritari og blaðamaður Morgunblaðsins þar í borg á árunum 1987 til 1993 og forstöðumaður Evrópuskrifstofu atvinnulífsins 1993 til 2004. Hann starfaði síðar sem leiðsögumaður og kennari við Ferðamálaskóla Íslands.

Kristófer var varaþingmaður Bandalags jafnaðarmanna og tók oft sæti á Alþingi á árunum1983 til 1986. Hann starfaði mikið í skátunum á yngri árum og tók virkan þátt í starfi ungmennafélaganna í Borgarfirði þegar hann bjó þar.

Eftirlifandi eiginkona Kristófers er Valgerður Bjarnadóttir, viðskiptafræðingur og fv. þingmaður. Fyrri kona hans var Margrét Skagfjörð Gunnarsdóttir. Þau eignuðust fjögur börn; Daða Má, Ágústu, Gísla Kort og Gunnar Tómas. Börn Valgerðar eru Guðrún Vilmundardóttir og Baldur Hrafn Vilmundarson.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert