Andlát: Sigurður Pétursson

Sigurður Pétursson.
Sigurður Pétursson.

Sigurður Pétursson, lögreglumaður og atvinnukylfingur, lést 19. apríl sl. í golfferð á La Gomera á Spáni. Sigurður fæddist 29. júní 1960 í Reykjavík og var því sextugur þegar hann lést.

Sigurður var flestum kunnugur í golfheiminum og snerist líf hans um golf allt frá því hann rölti ungur að aldri úr Árbæjarhverfinu, þar sem hann ólst upp, yfir á Grafarholtsvöll.

Aðeins 16 ára gamall var hann fyrst valinn í landslið Íslands í golfi. Sigurður varð þrívegis Íslandsmeistari í höggleik en hann sigraði árin 1982, 1984 og 1985. Sigurður á fjölmarga aðra titla í golfíþróttinni og var kosinn Íþróttamaður Reykjavíkur 1985. Það ár varð hann í 3. sæti í kjöri á Íþróttamanni ársins.

Sigurður hóf að kenna golf í Hvammsvík árið 1990 og starfaði sem golfkennari Golfklúbbs Reykjavíkur frá 1991 til '97 og rak golfverslun í Grafarholti á þeim árum. Samhliða sótti hann nám í PGA-golfkennaraskólanum í Svíþjóð og útskrifaðist úr honum 1994. Sigurður var brautryðjandi þegar kom að golfæfingum á veturna og rak æfingaaðstöðu á þremur mismuandi stöðum í Reykjavík

Sigurður starfaði um tíma með landsliðum Íslands í golfi, bæði sem golfkennari og liðsstjóri og einnig sem liðsstjóri með keppnisliðum Golfklúbbs Reykjavíkur. Hann starfaði reglulega sem fararstjóri í golfferðum og vann sem slíkur fyrir ferðaskrifstofuna Aventura síðustu ár. Hann eignaðist sinn fyrsta hest 2010 og var mikill hestamaður frá þeim tíma.

Sigurður útskrifaðist úr Verzlunarskóla Íslands 1978. Hann hóf störf fyrir lögregluna í Reykjavík 1986, útskrifaðist úr Lögregluskólanum 1988 og starfaði sem lögreglumaður til dánardags með hléi frá 1991 til '97. Sigurður lærði húsasmíði sem ungur maður og starfaði um tíma við húsasmíði á samningi hjá Olís.

Foreldrar Sigurðar voru Pétur J. Pétursson og Ragnheiður Guðmundsdóttir og systkini hans eru Guðmundur, Anna Bára og Ingibjörg.

Eiginkona Sigurðar er Guðrún Ólafsdóttir og kynntust þau á Grafarholtsvelli 1978. Sigurður lætur eftir sig fimm börn, þau Pétur Óskar, Hannes Frey, Hönnu Lilju, Ragnar og Önnu Margréti. Guðrún átti fyrir Ólaf, sem búsettur er í Svíþjóð.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert