Geta gefið 350.000 krónur árlega

Nú geta einstaklingar dregið allt að 350.000 krónur árlega frá skattskyldum tekjum sínum utan atvinnurekstrar vegna framlaga til almannaheillastarfsemi, t.d. mannúðar- og líknarstarfsemi, æskulýðs- og íþróttastarfsemi, björgunarsveita- og neytenda- og forvarnastarfsemi. Nýsamþykkt lög fela í sér heimild til þessa.

Í þeim er einnig kveðið á um  tvöföldun á hlutfalli sem atvinnurekstraraðilar mega draga frá skattskyldum tekjum vegna slíkra framlaga og fer það úr 0,75% í 1,5%. Slík framlög hækkuðu um milljarð króna árið 2016, þegar hlutfallið var hækkað úr 0,5% í 0,75%.

Í tilkynningu frá fjármálaráðuneytinu segir að gera megi ráð fyrir milljarðaaukningu til almannaheillastarfsemi vegna þessa.

Frádráttarheimild vegna framlaga til kolefnisjöfnunar tvöfaldist

Í tilkynningunni kemur einnig fram að lögin geri það að verkum að nýleg frádráttarheimild atvinnurekenda vegna framlaga til kolefnisjöfnunar tvöfaldist, úr 0,75% í 1,5%. Alls geti atvinnurekendur því fengið frádrátt sem nemur 3% á ári vegna framlaga sinna.

„Samkvæmt lögunum ber þeim sem styrkja almannaheillastarfsemi með þessum hætti að fá móttökukvittun frá móttakanda styrksins, en móttakandi sendir Skattinum í kjölfarið nauðsynlegar upplýsingar um gjafir eða framlög frá einstaklingum á hverju almanaksári. Umræddar upplýsingar eru í framhaldinu forskráðar á skattframtal einstaklings vegna næstliðins tekjuárs,“ segir í tilkynningunni.

Þar segir að samhliða auknum hvötum til að styðja við almannaheillastarfsemi hafi verið samþykktar ýmsar undanþágur frá greiðslu skatta fyrir félög til almannaheilla.

„Þannig er lagt til að þau verði undanþegin greiðslu tekjuskatts og staðgreiðslu skatts af fjármagnstekjum, auk undanþágu frá greiðslu virðisaukaskatts með nánar tilgreindum skilyrðum.“

Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra, lagði frumvarpið fram.
Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra, lagði frumvarpið fram. mbl.is/Kristinn Magnússon

Undanþegin greiðslum

Þá var samþykkt að aðilar sem starfa til almannaheilla verði undanþegnir greiðslu stimpilgjalda og geti auk þess sótt endurgreiðslu allt að 60% greidds virðisaukaskatts af vinnu manna á byggingarstað við byggingu, viðhald eða endurbætur á mannvirkjum sem alfarið eru í eigu þeirra. Þá er í lögunum veitt undanþága frá greiðslu erfðafjárskatts af gjöfum til aðila í almannaheillastarfsemi.

„Ný lög fela í sér að hugtakið almannaheill er tekið upp í 4. grein laga um tekjuskatt í stað orðsins almenningsheill. Í ákvæðinu er nánar tilgreint hvaða aðilar falla undir skilgreininguna, en til þeirra teljast meðal annars ýmis mannúðar- og líknarstarfsemi, æskulýðs- og íþróttastarfsemi, björgunarsveitir og neytenda- og forvarnastarfsemi.“

Neikvæð áhrif um tvo milljarða árlega

Gert er ráð fyrir að lagabreytingin hafi neikvæð áhrif á skatttekjur ríkissjóðs sem nemur um tveimur milljörðum króna á ári, en áhrifin eru ótímabundin.

Í tilkynningunni er eftirfarandi haft eftir Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra:

„Bætt umhverfi almannaheillastarfsemi hefur verið mér hugleikið um árabil. Það er því gríðarlega ánægjulegt að frumvarpið sé orðið að lögum, en málið hlaut afgerandi stuðning í þinginu. Með lögunum breikkum við tekjustofn almannaheillafélaga verulega og aukum á sama tíma möguleika fólks til að styðja við félög að eigin vali, án milligöngu ríkisins.“

mbl.is