Læknafélagið telur fyrri bólusetningu ekki nægja

Reynir Arngrímsson, formaður Læknafélags Íslands.
Reynir Arngrímsson, formaður Læknafélags Íslands. mbl.is/​Hari

Læknafélag Íslands vill leggja áherslu á að við mat á framgangi bólusetninga og slökunar á sóttvörnum innanlands og á landamærum skuli miðað við að einstaklingar séu fullbólusettir og ekki sé fullnægjandi að miða við fyrri bólusetningu, ef í lyfjalýsingu sé talin þörf á fleiri en einum skammti.

Kemur þetta fram í umsögn félagsins við frumvarpi til breytingar á sóttvarnalögum og lögum um útlendinga, sem fjalla um sóttvarnahús og för manna yfir landamærin.

Gera alvarlegar athugasemdir við skilgreiningu áhættusvæða

LÍ gerir þá alvarlegar athugasemdir við áætlun stjórnvalda um að skilgreina hááhættusvæði sem svæði þar sem smit eru 1.000 á 100.000 íbúa en ekki 500 smit á 100.000 íbúa, líkt og Evrópska sóttvarnastofnunin miðar við.

Eins eru gerðar athugasemdir við skilgreiningu áhættusvæða í frumvarpinu en þar falla undir svæði þar sem smit eru 750 á 100.000, en ekki 150-500 tilfelli líkt og viðmið Evrópsku sóttvarnastofnunarinnar gera ráð fyrir. 

„LÍ telur að í greinargerð með frumvarpinu komi ekki fram nægjanlegur rökstuðningur fyrir slíkum breytingum og leggur til að stuðst verði áfram við hinar alþjóðlegu skilgreiningar á áhættumati sem Evrópska sóttvarnastofnunin, European Centre for Disease Prevention and Control, styðst við og að viðbragðsáætlun og úrræði við landmæri Íslands taki mið af því í reglugerðinni,“ segir í umsögn félagsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina