Miðlar landfræðigögnum á eigin vegum

Þorvaldur Bragason hefur brennandi áhuga á að varðveita og miðla …
Þorvaldur Bragason hefur brennandi áhuga á að varðveita og miðla sögulegum gögnum um landupplýsingar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Enginn einn opinber aðili á Íslandi hefur miðlunarhlutverk á þessu víðtæka sviði fyrir alla landfræðilega gagnaflokka. Mér fannst mig vanta þannig vefaðgang svo ég ákvað að vinna þetta á eigin vegum og á eigin kostnað og ákvað um leið að hugsa þetta opið fyrir allra aðra sem höfðu svipaða þörf fyrir að komast í þessar upplýsingar,“ segir Þorvaldur Bragason, landfræðingur og upplýsingafræðingur.

Þorvaldur er fyrrverandi sviðsstjóri hjá Landmælingum Íslands og er nú verkefnisstjóri landupplýsinga hjá Orkustofnun. Hann hefur byggt upp landfræðilega upplýsingaþjónustu á netinu þar sem mögulegt er að fá á einum stað aðgang að víðtækum upplýsingum um landfræðileg gögn hér á landi. Það gerir hann með því að halda úti þremur vefgáttum, landakort.is, landkönnun.is og vefkortasafninu. Landakort hefur hann rekið í fjórtán ár en hinir vefirnir eru nýrri. Hann skrifar reglulega pistla á vefina og hefur gefið rúmlega 120 þeirra út í tveimur rafbókum og einnig látið prenta nokkur eintök til kynningar á verkefnunum. Um er að ræða bækurnar „Kortagögn og málefni kortasafna“ og „Fjarkönnunargögn og skipulag landupplýsinga“, sem komu út á síðasta ári.

Ekki samræmt aðgengi

„Ég lít svo á að kort, loftmyndir og gervitunglagögn af Íslandi sem til eru á stofnunum, í fyrirtækjum, hjá sveitarfélögum og í söfnum séu hluti af menningararfi þjóðarinnar. Aðgengi að þessum upplýsingum hefur ekki verið samræmt og er oft takmarkað. Ég vil með þessum verkefnum tengja saman þær upplýsingar sem hægt er að finna í dag í opnum veflausnum og hvetja til þess að meira sé gert í skráningu og gagnaframsetningu á þessu sviði á netinu en þar hefur vantað nokkuð upp á,“ segir Þorvaldur.

Hann nefnir að þótt ný stafræn kortagögn flæði nú yfir alla daga í kortasjám á netinu og í farsímum og hverfi síðan eins og hendi sé veifað þegar nýjar uppfærslur verði til megi ekki gleyma því að á bak við gerð alls þessa nýja stafræna kortaefnis og myndgrunna séu eldri frumgögn í miklu magni. Opinberar stofnanir, sveitarfélög og aðilar á markaði hafi aflað og eignast korta- og myndgögn á löngum tíma og þau þurfi að varðveita. „Við sem nú erum starfandi á vinnumarkaði sem og komandi kynslóðir þurfum áfram að geta komist í eldri frumgögn á þessu sviði og byggt á upplýsingunum sem í þeim felast. Varðveisla þeirra verður að vera tryggð og samhæfðar upplýsingar um efnið verða að vera aðgengilegar á netinu,“ segir Þorvaldur.

Hann segist vera að leggja sitt lóð á vogarskálarnar með verkefnum sínum.

Hvetur til stefnumótunar

Þorvaldur telur að stefnuleysi og ákveðið sinnuleysi ríki víða um aðgengi og varðveislu sögulegra landfræðilegra gagna á Íslandi. Opinber heildarstefna sé ekki til. „Það er mikilvægt að á vegum ráðuneytis safnamála, mennta- og menningarmálaráðuneytisins, verði farið að huga að gerð opinberrar aðgengis- og varðveislustefnu á sviði landfræðilegra gagna hér á landi, svo við missum ekki málin út úr höndum okkar. Ýmis landupplýsingagögn, margvíslegar landfræðilegar heimildir og heimildarmenn um sértæk efni frá liðnum ártugum verða ekki alltaf til staðar. Það er hins vegar enn tími til að afstýra óafturkræfum skaða ef brugðist er við núna. Ég vonast svo auðvitað til þess að það finnist leiðir til að forgangsraða og fjármagna vinnu við mikilvægustu verkefnin. Þannig ætti að verða auðveldara en nú er að varðveita safnkost landfræðilegra gagna af Íslandi með öruggari hætti. Jafnframt fengjum við enn betri vefaðgang að ýmsum upplýsingum um kortagögn sem notendur þurfa á að halda.“

Aðgengi að kortasjám og vefsíðum

Á vefgáttinni landakort.is er aðgengi frá forsíðu að tenglum í allar íslenskar kortasjár og helstu vefsíður sem fjalla um landfræðileg málefni á Íslandi. Pistlar eru birtir um landfræðileg upplýsingamál.

Landkönnun.is er sömuleiðis vefgátt og hún veitir aðgengi að tenglum beint í safnefni á sviði korta, loftmynda og gervitunglagagna. Vefkortasafnið er kortasjá sem veitir aðgengi að skönnuðum útgáfum korta af Íslandi frá nokkrum stofnunum í gegnum yfirlitskort. Hægt er að velja marga kortaflokka í einu og sjá öll kort í ákveðnum kortaflokkum af ákveðnum stöðum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert