Skjálftahrina norðaustur af Grindavík

Skjálftarnir mældust rétt norðaustur af Bláa lóninu.
Skjálftarnir mældust rétt norðaustur af Bláa lóninu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Á bilinu 500 til 600 skjálftar hafa mælst á sama svæði og jarðskjálfti að stærð 4,1 mældist í gærkvöldi, norðaustur af Grindavík, rétt norðaustur af Bláa lóninu.

Vangaveltur hafa verið uppi um að nýtt gosop hafi opnast á gossvæðinu um sama leyti og skjálfti fannst en enn er ekkert orðið ljóst í þeim efnum. 

Spennubreytingar eru á svæðinu, sem er nokkuð frá Geldingadölum, og er um að ræða gikkskjálfta sem mældust einnig í aðdraganda gossins í Geldingadölum. Lítil merki eru um að gossprungur opnist á svæðinu að sögn Bjarka Kaldalóns Friis, náttúruvársérfræðings á Veðurstofu, en vísindamenn fylgjast grannt með.

Á fundi almannavarna í dag var fjallað um skjálftavirknina og fóru nokkrir náttúruvársérfræðingar Veðurstofunnar á svæðið til þess að kanna virkni og mæla hita í sprungum þar.

Í gær mældist þar skjálfti upp á 4,1 stig en næststærsti skjálftinn sem fylgdi í kjölfarið var 3,2 að stærð.

mbl.is