Brottrekinn sveitarstjóri skoðar réttarstöðu sína

Hólmavík er eini þéttbýliskjarninn í sveitarfélaginu Strandabyggð.
Hólmavík er eini þéttbýliskjarninn í sveitarfélaginu Strandabyggð. mbl.is/Sigurður Bogi

Þorgeir Pálsson, sem sagt var upp störfum sem sveitarstjóra Strandabyggðar á þriðjudag, er ósáttur við það hvernig staðið var að uppsögninni og hyggst íhuga alvarlega að taka málið lengra, jafnvel fyrir dómstóla. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Þorgeiri.

Yfirlýsingin var upphaflega birt á heimasíðu sveitarfélagsins en hún hefur nú verið fjarlægð þaðan. Fréttavefurinn Strandir.is greinir fyrst frá og birtir yfirlýsinguna.

Sakar sveitarstjórn um að brjóta lög

Þorgeir segir að ákvörðun sveitarstjórnar hafi komið honum á óvart. Vissulega hefði ágreiningur verið uppi í vissum málum, fyrst og fremst þeim sem snúa að hagsmunagæslu sveitarstjórnarfulltrúa og varamanna. Segir Þorgeir að óheppilegar og óæskilegar tengingar þeirra hafi verið við styrkúthlutanir og aðra ráðstöfun fjármagns og eigna sveitarfélagsins.

Segir hann sumar þessara ákvarðana stangast á við sveitarstjórnarlög, sem og samþykkktir og siðareglur sveitarfélagsins.

Tekur hann sem dæmi að honum hafi áður verið vikið úr vinnuhópum um annars vegar framkvæmdir við íþróttamiðstöð bæjarins og hins vegar sameiningu leik-, grunn- og tónlistarskóla, vegna skoðana hans og gagnrýni þrátt fyrir að vera samkvæmt lögum æðsti yfirmaður annars starfsliðs sveitarfélagsins.

Tæplega 500 manns búa í Strandabyggð en eini þéttbýliskjarni sveitarfélagsins, sem þó er nokkuð víðfeðmt, er Hólmavík. Stjórnmálaflokkar bjóða ekki fram lista í kosningunum heldur er notast við persónukjör og sitja fimm í sveitarstjórn.

Í tilkynningu frá Strandabyggð í tilefni uppsagnarinnar kom fram að „ólík sýn á stjórnun og málefni“ væri ástæða uppsagnarinnar.

Uppsögnin tengist ekki fjárhagsstöðu

Stutt er síðan ríkið varð að hlaupa undir bagga með sveitarfélaginu vegna erfiðs reksturs þess, en 30 milljónum króna var veitt úr jöfnunarsjóði sveitarfélaga þar sem rekstur sveitarfélagsins stendur ekki undir skuldbindingum. Var jafnframt samið um að hefja fjárhagslega endurskipulagningu á rekstri Strandabyggðar.

Í yfirlýsingunni segir Þorgeir þó að engin tengsl séu milli brottrekstursins og fjárhagsstöðu Strandabyggðar. Þvert á móti hafi starfsmönnum á skrifstofu sveitarfélagsins ítrekað verið hrósað fyrir það þor að kalla eftir aðstoð ráðherra og sveitarstjórnarráðuneytisins þegar í júlí í fyrra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert