Fara eftir áhættumati almannavarna við landamærin

Kórónuveirusmit hafa komist inn í landið í gegnum landamærin. Myndin …
Kórónuveirusmit hafa komist inn í landið í gegnum landamærin. Myndin er úr safni og tengist fréttinni því ekki með beinum hætti. mbl.is/Árni Sæberg

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir stefnir á að skila minnisblaði til heilbrigðisráðherra í dag um hertar aðgerðir á landamærum í samræmi við ný­samþykkt lög sem heim­ila yf­ir­völd­um að skylda ferðamenn í sótt­varna­hús. Hann segir lögin „ágætislög“ framfaraskref að geta stuðst við þau. Fyrst og fremst verður farið eftir áhættumati almannavarna hvað varðar aðgerðir á landamærum, ekki skilgreiningu Sóttvarnastofnunar Evrópu á áhættusvæðum.

„Við þurfum núna að klára þetta landamæramál, við erum að reyna að koma því í gang en jafnhliða þurfum við að hafa góðar gætur á þessum innanlandsmálum,“ segir Þórólfur í samtali við mbl.is.

Sérð þú fram á að leggja fram tillögur í samræmi við þessi lög?

„Já, annars væri tilgangslaust að setja lögin.“

Geta horft til veiruafbrigða, rétt eins og nýgengis

Hvenær er útlit fyrir að hertar aðgerðir taki gildi?

„Ég stefni að því að skila minnisblaði til ráðherra í dag. Svo þarf að koma út reglugerð. Svo þarf að breyta ýmsu í framkvæmdinni svo það muni virka. Við svona reglugerðarbreytingu eru alls konar hlutir sem þarf að innleiða, breyta og laga varðandi skráningu, eftirlit og annað slíkt. Það tekur alltaf einhverja daga myndi ég halda.“

Spurður hvort lögin gangi nægilega langt segir Þórólfur:

„Mér finnst þetta bara ágætislög, þau gefa svigrúm til ýmislegs. Það er ekkert neglt niður í þessum lögum um það hvaða nýgengi eigi að miða við, það er á herðum sóttvarnalæknis að skilgreina það og koma með þær tillögur sem verða þá birtar í reglugerð. Það er líka hægt að taka tillit til veiruafbrigða þegar verið er að meta áhættusvæði, hvaða veiruafbrigði eru að ganga í þessum löndum og hversu hættuleg þau eru og svo framvegis. Ég tel að það sé framfaraskref að geta stuðst við þessi lög.“

Hvaða nýgengi verður miðað við?

„Það er bara til skoðunar. Við munum nota áhættumat sem almannavarnadeild gerir á landamærum sem byggist á því hvaðan smitin eru að koma hingað, hvaða smit eru að leka inn í landið og því hvort við getum einhvern veginn náð utan um það. Við þurfum fyrst og fremst að styðjast við það áhættumat frekar heldur en að styðjast við einhverja flokkun hjá Sóttvarnastofnun Evrópu.“

mbl.is