Noregur staðfestir bóluefnalánið til Íslands

AFP

Heilbrigðisráðuneyti Noregs staðfesti í tilkynningu í dag að landið muni lána Íslandi og Svíþjóð skammta af bóluefni AstraZeneca gegn Covid-19 en Norðmenn hafa ákveðið að nota ekki bóluefnið í bili vegna mjög sjaldgæfra blóðtappa sem hafa verið tengdir við bólusetningu með efninu. 

„Ég er feginn að bóluefnin sem við höfum á lager munu nýtast vel þótt beðið sé með að nota AstraZeneca-bóluefnið hér í Noregi. Ef við hefjum notkun bóluefnisins á ný munum við fá til baka skammtana sem við lánuðum um leið og við biðjum um þá. Svíþjóð og Ísland munu þá senda fyrstu skammtana sem löndin fá til Noregs,“ er haft eftir Bent Høie, heilbrigðisráðherra Noregs, í tilkynningu. 

Noregur hefur 216.000 skammta af bóluefni AstraZeneca á lager. Íslendingar fá 16.000 af þeim skömmtum en Svíar 200.000. Notkun bóluefnisins hérlendis er takmörkuð við 65 ára og eldri en mögulega verður yngra fólk, þá sérstaklega karlmenn, bólusett með efninu síðar. Aukaverkanirnar hafa ekki fundist hjá eldra fólki og virðast þær vera algengari á meðal yngri kvenna. 

Fréttin hefur verið uppfærð

mbl.is

Bloggað um fréttina