Yfir Kjöl með látna móður aftur í

Hilmar Oddsson. „Það sem ég er að gera í þessu …
Hilmar Oddsson. „Það sem ég er að gera í þessu verki er mjög ólíkt öllu sem ég hef gert áður.“ mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hilmar Oddsson sest nú aftur í stól kvikmyndaleikstjórans eftir langt hlé. Tökur á myndinni Á ferð með mömmu fara af stað í sumar, en hugmyndin að henni kviknaði fyrir næstum þrjátíu árum þegar Hilmar og Þröstur Leó sátu að spjalli í Bolungarvík og sögur fóru á flug um áhugavert fólk. „Ég hefði aldrei gert þessa mynd án Þrastar, hlutverkið er skrifað fyrir hann, honum til heiðurs,“ segir Hilmar.

Þetta hefur verið nokkuð langur biðtími á milli mynda hjá mér, ég gerði síðast bíómynd fyrir tólf árum,“ segir Hilmar Oddsson kvikmyndagerðarmaður sem hlakkar til að setjast aftur í leikstjórastólinn eftir þetta langa hlé, en í sumar fer hann af stað með tökur fyrir næstu kvikmynd sína sem heitir Á ferð með mömmu.

Þröstur Leó Gunnarsson.
Þröstur Leó Gunnarsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta er vegamynd og hugmyndina að henni fékk ég fyrir tuttugu og sjö árum. Ég hef oft verið að vinna með hugmyndir í langan tíma og leyft þeim að malla. Hugmyndin að kvikmynd minni Kaldaljósi var til dæmis með mér í fimmtán ár áður en ég gat komist í tökur á henni, og eins var myndin mín Tár úr steini, lengi í vinnslu og framkvæmd. Þetta er því ekki alveg nýtt fyrir mér, en ég lít líka á þetta sem kost, því ef hugmynd lifir af langan tíma, þá er eitthvað í hana spunnið, að mínu mati,“ segir Hilmar og bætir við að það hafi einmitt verið í biðtíma í tökum á kvikmyndinni Tár úr steini, sem hugmyndin að nýju myndinni upphaflega kviknaði.

„Þröstur Leó fór með aðalhlutverkið í þeirri mynd og ég var staddur í heimsókn hjá honum á Bíldudal þegar hann fór að segja mér sögur af fólkinu þarna á svæðinu. Þetta voru sögur af kynlegum kvistum, bæði körlum og konum við Arnarfjörð og mér fannst þetta svo skemmtilegt og forvitnilegt fólk að það fæddist strax hugmynd hjá mér að kvikmynd. Daginn eftir kom ég með tilbúna beinagrind að handriti sem við Þröstur ákváðum að hrinda í framkvæmd við fyrsta tækifæri,“ segir Hilmar og hlær í ljósi þess að síðan séu tuttugu og sjö ár.

Kristbjörg Kjeld.
Kristbjörg Kjeld. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég er búinn að gera þrjár bíómyndir í fullri lengd síðan þetta var, líka allskonar þætti, og ég hef verið skólastjóri hjá Kvikmyndaskólanum í sjö ár og sinnt tónlistinni. Rétt á meðan ég var að melta þetta og bíða eftir rétta tímanum.“ Hann segir merkilega lítið hafa breyst frá upprunalegu grunnhugmyndinni.

„Hún hefur orðið þéttari og ég er búinn að forma söguna betur.“

Myndin gerist árið 1980 og fjallar um mæðgin sem hafa búið saman í áratugi á afkekktum bæ við Arnarfjörð. Þröstur Leó fer með hlutverk sonarins en Kristbjörg Kjeld verður í hlutverki móðurinnar.

„Þegar móðirin deyr stendur sonurinn frammi fyrir því að þurfa að efna loforð sem hann gaf henni um að leggja hana til hinsu hvílu í heimabæ hennar, sem er hinum megin á landinu, á Eyrarbakka. Í stað þess að smíða utan um hana kistu þá klæðir hann móður sína í sitt fínasta púss frá þeim tíma sem hún var ung dama á Eyrarbakka. Hann farðar hana, setur á hana hatt og slör og kemur henni fyrir í aftursætinu, sitjandi með bílbelti. Hundurinn Brésneff situr í framsætinu og þessi þrenning heldur af stað í þessa óvenjulegu ferð. Ferðin liggur þvert yfir landið, hann fer suður Kjöl, en hann hefur lítið ferðast og ekur mjög hægt, svo honum er ráðlagt að halda sig sem mest á malarvegum, til að valda ekki hættu þar sem umferð er hröð. Ferðalag sonarins með sína látnu móður gengur ekki snurðulaust, en það sem gerist er að þessi vegferð verður að uppgjöri milli þeirra mæðgina. Hann kemst að því að lífi hans hefur að mörgu leyti verið stýrt af móður hans og hann er ekki allskostar sáttur við allt þar, og þá er spurning hvernig hann bregst við því. Ég kalla þetta svarta kómedíu og þetta er sannarlega slík mynd, það er mikið lagt upp úr húmornum. Þetta eru óvenjulegar aðstæður og óvenjulegt ferðalag, umgörðin öll er óvenjuleg og kómísk. En hún er líka sorgleg, eins og öll góð kómík. Endirinn er á mjög sérstakan hátt jákvæður,“ segir Hilmar sem vill eðlilega ekki upplýsa um of um hvernig þetta allt saman fer.

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu sem kom út 21. apríl.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert