Engin áform um hertar reglur innanlands

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Engin áform eru um það eins og staðan er núna að sóttvarnareglur verði hertar innanlands. Þetta sagði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra að loknum ríkisstjórnarfundi í dag.

Tíu innanlandssmit greindust í gær og var einn utan sóttkvíar. Í fyrradag voru smitin 17 talsins og þar af voru 8 utan sóttkvíar.

Svandís kveðst ekkert hafa heyrt frá Þórólfi Guðnasyni um hertar reglur innanlands. Engu að síður segir hún blikur vera á lofti og að smitin að undanförnu sýni að veiran sé á ferðinni úti í samfélaginu.

„Enn sem komið er virðist vera um tilteknar hópsýkingar að ræða og það hefur komið fram í raðgreiningu að svo sé. Það eru fá smit utan sóttkvíar en við verðum að vera tilbúin að grípa hratt inn í ef til þess kemur,“ segir Svandís, sem nefnir að mikill gangur sé í bólusetningum. 25 þúsund bólusetningar séu fyrirhugaðar í næstu viku. „Það er allt í rífandi gangi.“

mbl.is

Bloggað um fréttina