Langflest tengd hópsmiti í Jörfa

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra.
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Langstærsti hlutinn af þessu tengist hópsmitinu sem hefur verið kennt við leikskólann Jörfa, meira en helmingurinn,“ segir Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, í samtali við mbl.is. 

Sautján innanlandssmit greindust síðasta sólarhringinn, þar af voru öll nema eitt í sóttkví við greiningu. Tvö smit greindust við landamærin.

Bíða raðgreiningar smitsins utan sóttkvíar 

Hann segir önnur smit hafa tengingar sem búið er að kortleggja. 

„Sextán af þessum aðilum eru í sóttkví og eru því með tengingar við þekkt smit. Við erum að vinna í því sem var utan sóttkvíar. Þar er hugsanleg tenging sem við erum að vinna í að fá staðfest,“ segir Víðir. 

Hann segir raðgreiningu smitsins sem greindist utan sóttkvíar í gær liggja fyrir í kvöld eða á morgun og að smitrakningarteymið sé að skoða málið betur.

Eru tölurnar í dag ekki í raun góðar?

„Jú, þannig séð. Það er gott að þetta sé að mestu í sóttkví. Það sýnir samt hve smitið er mikið sem tengist þessum hópsmitum. Það er gríðarlegur fjöldi barna á leikskólum sem eru búin að smitast.“

Allt bendir til að smitrakning hafi gengið 

Voru öll smitin greind í Reykjavík?

„Já og það er Selfosstenging í þessu líka.“

Víðir segist ekki hafa nákvæma tölu yfir hversu mörg af smitum gærdagsins greindust meðal barna. Alla vega fimm börn hafi verið greind með Covid-19 síðdegis í gær. 

Um fjögur hundruð manns sem ljúka áttu sóttkví í gær fóru í seinni skimun í gær. Þannig var viðbúið að nokkur fjöldi myndi greinast í sóttkví. 

Víðir segir að næstu tveir dagar muni einkennast af því að stórir hópar sem fóru í sóttkví vegna hópsýkinga munu klára sóttkví. Þannig má búast við að nokkur fjöldi greinist áfram. 

„Bara svo lengi sem það virðist hafa náð öllum í sóttkví sem tengdust þessu, þá er það stóra málið – að smitrakningin hafi gengið upp. Við vitum auðvitað aldrei en allt bendir til þess enn.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert