Ég er ekki í óttanum

„Þetta var algjört sjokk og maður situr eftir stjarfur, en …
„Þetta var algjört sjokk og maður situr eftir stjarfur, en samt er svo merkilegt að fljótlega kemur hugsunin: af hverju ekki? Fólk lendir í svona og af hverju ekki ég? Svona er lífið,“ segir Svavar Pétur Eysteinsson, öðru nafni Prins Póló en hann glímir við erfitt krabbamein. mbl.is/Ásdís

Hann gengur undir listamannsnafninu Prins Póló en heitir fullu nafni Svavar Pétur Eysteinsson. Og þótt hliðarsjálfið sé Prinsinn er maðurinn sem situr á móti blaðamanni með kaffibollann sinn enginn prins. Hann er venjulegur fjölskyldufaðir, eiginmaður, bulsuframleiðandi, ferðaþjónustubóndi, listamaður og nemi í ljósmyndun. Sem lenti í því að krabbamein bankaði upp á.

Veikindin urðu til þess að Svavar lagði kórónuna á hilluna en tónlistin er þó aldrei langt undan. Annað slagið dustar hann rykið af gullkórónunni úr pappa og skellir á höfðuðið, en þessa dagana á ljósmyndun hug hans allan. Já, og grafísk hönnun, myndlist, Havarí og síðast en ekki síst fjölskyldan.

Svavar hefur áður ekki viljað tjá sig opinberlega um veikindi sín, en segist nú tilbúinn. Hann hefur sætt sig við orðinn hlut og nýtur dagsins sem aldrei fyrr.

Heillaðist af pönki

Svavar er Breiðhyltingur og sleit þar barnsskónum, en sumrunum eyddi hann austur á fjörðum í sveit hjá afa sínum og ömmu.

List í ýmsu formi var í hávegum höfð á heimilinu en faðir Svavars, eðlisfræðingurinn Eysteinn Pétursson, var liðtækur á ýmis hljóðfæri. Móðir hans, Aldís Hjaltadóttir, er einnig listræn.

„Mamma er tækniteiknari og bæði hún og pabbi höfðu alltaf mikinn áhuga á list og tónlist. Ég er alinn upp við klassíska tónlist og pabbi spilaði á harmóniku og píanó og söng mikið. Það var til nóg af hljóðfærum á heimilinu til að grípa í og ég var mikið að glamra,“ segir Svavar og segist hafa lært á gítar í tvo vetur.

„Svo hélt ég bara áfram að glamra. Ég heillaðist mest af pönki til að byrja með, þar sem sköpunargleði og drifkraftur ræður ríkjum,“ segir hann og segist hafa hlustað á íslenska nýbylgju og Sex Pistols sem unglingur.

Ég er fæddur alkóhólisti

Svavar segist hafa farið í uppreisn á unglingsárunum en hann byrjaði snemma að drekka.

„Ég held ég sé fæddur alkóhólisti og hvaðan það kemur veit ég ekki. Það er ekki alkóhólismi í minni fjölskyldu og ég er ekki alinn upp við áfengi. En mér fannst áfengi rosalega spennandi og alveg frá því ég var lítill hafði ég gífurlegan áhuga á öllu sem tengdist því. Að hella í sig um helgar varð svo hluti af lífinu alveg fram yfir þrítugt. Ég var alltaf í einhverju partístandi á sama tíma og ég var að koma undir mig fótunum, byggja upp feril og stofna fjölskyldu. Þetta varð svo þreyttara og þreyttara og ég fór að gera tilraunir með að hætta. Á endanum tókst mér að fara inn á edrúbrautina,“ segir Svavar og segir þau hjón hafa stigið það gæfuspor saman.

„Við höfum verið edrú í tíu ár,“ segir Svavar, sem nýlega fagnaði þeim áfanga og er bæði þakklátur og stoltur.

„Nú er mánudagur, sem var eitt sinn versti dagur vikunnar, en nú er hann sá besti.“

Giftumst innan árs

Svavar fór í Fjölbraut í Breiðholti á fjölmiðlabraut og naut sín vel í félagslífinu, sem var blómlegt. Hann var þar í hljómsveitum og spilaði mikið. Eftir menntaskóla kom Svavar við í háskólanum og lærði heimspeki einn vetur en settist svo á skólabekk í Listaháskóla Íslands í grafískri hönnun.

„Þarna var ég í þrjú ár að læra hönnun, en aðallega fékk ég tækifæri til að vera einhvers staðar að skapa og finna mig. Þetta var góður tími en líka erfiður, því það var mikið slark á manni á þessum árum.“

Fljótlega eftir útskrift árið 2003 kynntist Svavar konu sinni Berglindi Häsler.

„Ég flutti fljótlega inn til hennar og við giftum okkur sumarið eftir, innan árs eftir að við kynntumst,“ segir Svavar og brosir.

Prinsinn fæddist á Seyðisfirði

Hjónin ákváðu að breyta til og fluttu á Seyðisfjörð árið 2008 þar sem Berglind fékk vinnu sem svæðisfréttamaður RÚV á Austurlandi.

„Við höfðum áður verið viðloðandi Seyðisfjörð og áttum marga vini þar og okkur langaði að hvíla okkur á borginni. Að vísu vorum við búin að búa einn vetur í Barcelona. En á Seyðisfirði fór ég að starfa sem sjálfstætt starfandi tónlistarmaður og þennan vetur skapaði ég Prins Póló. Ég hafði verið í hljómsveitum og í samstarfi við aðra en þarna rankaði ég við mér einn úti á landi. Við leigðum stórt hús í bænum og komum okkur fyrir. Ég bjó mér til hljóðver í kjallaranum og eftir að Berglind fór í vinnuna á morgnana og krakkarnir í skólann fór ég niður í kjallara að búa til tónlist. Ég fór að einbeita mér að því að semja hversdagslega íslenska tónlist, byggða á stefjum úr íslenskri tónlist og sprottna úr íslenskum kúltúr. Ég vildi hafa þetta eins barnalegt og spontant og ég gat og upp úr því umhverfi spratt Prinsinn,“ segir hann.

Prins Póló sló í gegn hjá þjóðinni með lög sprottin …
Prins Póló sló í gegn hjá þjóðinni með lög sprottin úr hversdagsleikanum. Mbl/Styrmir Kári

„Textarnir eru margir byggðir á raunverulegum hugbrotum; það er ekkert sem er alveg út í bláinn. En ég tek einhvern raunveruleika og mála hann í einhverjum allt öðrum litum,“ segir Svavar, sem segist ekki geta sett sína tónlist í einhvern flokk.

„Tónlistin er undir áhrifum frá hversdagslífinu.“

Er það satt að hugmyndin að Prins Póló hafi kviknað úti í sjoppu á Seyðisfirði?

„Já, en það er svo langt síðan ég sagði þessa sögu að ég veit ekki lengur hvort hún er sönn, en ég held mig bara við hana,“ segir Svavar kíminn.
„Ástæðan fyrir að ég valdi þetta nafn er sú að mig langaði að gera sjoppulega músík. Og svo hugsaði ég að ef það er eitthvað sem Íslendingar elska skilyrðislaust, þá er það prins póló.“

Að hræra í bulsur

Fjölskyldan undi sér vel austur á fjörðum og smátt og smátt fór hin einfalda og hversdagslega tónlist Prins Póló að slá í gegn hjá þjóðinni.

„Ég gaf út plötuna Jukk. Á þeirri plötu var einfalt lag með kæruleysislegum texta, Niðrá strönd. DJ Margeir og Jón Atli gerðu remix af laginu og það varð mjög vinsælt í klúbbum. Svo gaf ég út plötu sem hét Sorrí og hún tróndi í toppsætinu það árið, árið 2014,“ segir Svavar og segist þá hafa getað lifað af tónlistinni í bland við að taka að sér hönnunarverkefni.

„Eftir Seyðisfjörð fluttum við aftur til Reykjavíkur árið 2009 og opnuðum búð sem hét Havarí. Þetta var plötubúð, gallerí og lítill dagklúbbur og varð að miklum suðupunkti. Við vorum þá byrjuð í matvælaframleiðlsu; að framleiða bulsur,“ segir Svavar og segir áhugann á matvælaframleiðlsu sprottinn úr áhuga þeirra hjóna á landbúnaði og nýsköpun.
„Við höfðum áhuga á því hvað væri hægt að gera nýtt. Á þessum tíma hætti ég að borða kjöt og fékk þá dellu fyrir því að búa til pulsur úr grænmeti. Það varð enn ein áráttan og þráhyggjan,“ segir Svavar og brosir.

Svavar Pétur sést hér með grillaðar bulsur sem hafa notið …
Svavar Pétur sést hér með grillaðar bulsur sem hafa notið vinsælda hjá fólki sem ekki borðar kjöt. mbl/Ómar Óskarsson

Hjónin öfluðu sér upplýsinga og þróuðu svo uppskrift að bulsum, sem njóta enn vinsælda.

„Við fórum á fullt í þróun og stóðum í eldhúsinu heima að hræra í bulsur svo mánuðum skipti. Þetta var mjög erfitt, enda höfðum við enga þekkingu á þessu. En svo fór þetta á markað og seldist mjög vel. Fljótlega var þetta komið í framleiðslu hjá öðru fyrirtæki og í kjölfarið fórum við með þetta í Norðlenska, sem sér núna um framleiðsluna. Það er mjög fastur kúnnahópur að bulsum. Seinna fórum við að framleiða bopp, sem er snakk úr byggi. Sá áhugi leiddi okkur svo austur.“

Mikið að skipta um hatta

Hjónin keyptu þá Karlsstaði í Berufirði, sem var stór jörð með mörgum byggingum, mislúnum.

„Ég byrjaði á því að leggja nýtt gólfefni og mála svo við gætum flutt inn, en svo urðu þetta fimm ár af stanslausum framkvæmdum, samhliða því að reka bú og byggja upp ferðaþjónustu. Þetta var sturluð vinna og stundum þegar ég horfi til baka skil ég ekki hvað við vorum að pæla, en þetta var alveg ofsalega skemmtilegt,“ segir hann og segir eitt hafa leitt af öðru.

„Það er hörkuvinna að reka ferðaþjónustu; að búa um rúm, hella upp á kaffi og sjá um allt annað. Við vorum í öllu en hægt og rólega bættum við við starfsfólki. Við skipulögðum þarna viðburði og tónleika líka þannig að ég var mikið að skipta um hatta; fara úr einum galla í annan. Ég var alltaf að skipta um hlutverk, auk þess að ala upp börnin og hendast um allar trissur sem Prinsinn,“ segir Svavar og segist hafa haft meira en nóg að gera allt frá árinu 2014 þegar þau tóku við Karlsstöðum. Hann segir reksturinn hafa gengið vel þótt auðvitað hafi áhættan verið nokkur og mörg lán slegin.

„Það gekk vel og við bjuggum þarna árið um kring fyrstu fimm árin en höfum síðan verið þarna á sumrin. Það hefur auðvitað verið lokað í Covid en við stefnum á að opna í vor.“

Líf ertu að grínast?

„Svo í lok árs 2018 ákváðum við að hvíla okkur á þessari keyrslu og búa einn vetur í Reykjavík. Í miðjum flutningum greindist ég með krabbamein í vélinda,“ segir Svavar.
„Það byrjaði þannig að ég hafði fundið fyrir örðugleikum við að kyngja og var sendur í magaspeglun á Norðfirði en þá voru Berglind og krakkarnir komin í bæinn. Ég fæ strax að vita að ég sé með mein í vélindanu. Það sem gerðist í kjölfarið er að manni er kippt mjög snaggaralega inn í heilbrigðiskerfið,“ segir Svavar.

„Þetta er ekki skurðtækt mein. Ég fór í lyfjameðferð og hef síðan verið í stöðugum lyfjameðferðum með hléum.“

Hvernig bregst maður við svona fréttum? Var þetta ekki hryllingur?

„Jú, vægast sagt. Þetta var sambland af því að fá algjört taugaáfall og því að hugsa; já auðvitað, hvað annað. Þegar maður lifir góðu lífi án nokkurra áfalla og hefur fengið að láta alla sína drauma rætast hugsar maður að það hljóti að koma að því að það gerist eitthvað. Þetta getur ekki gengið svona endalaust. Ég er bara búinn að vera of heppinn,“ segir Svavar og segir lífinu þarna hafa verið snúið á hvolf.

Svavar hefur snúið sér í auknum mæli að ljósmyndun en …
Svavar hefur snúið sér í auknum mæli að ljósmyndun en hann mun útskrifast í vor. mbl.is/Ásdís

„Sú hugsun hefur alltaf verið til staðar hjá mér að eitthvað slæmt gæti komið fyrir, án þess að ég hafi verið hræddur við lífið. En ég átti engan veginn von á þessu. Þetta var algjört sjokk og maður situr eftir stjarfur, en samt er svo merkilegt að fljótlega kemur hugsunin: af hverju ekki? Fólk lendir í svona og af hverju ekki ég? Svona er lífið.“

Margir kannast við setningu Svavars: „Líf ertu að grínast?“ en hana samdi hann fyrir margt löngu.
„Þessi setning kom löngu áður. En hún öðlaðist þarna alveg nýja merkingu.“

Myrkur þetta fyrsta ár

Hvað sagði læknirinn þinn?

„Ég og læknirinn minn höfum aldrei átt samtalið um hvað ég eigi langt eftir. Ég byrjaði á að leggjast yfir þetta og lesa mér til. Ég fór líka að skoða óhefðbundnar aðferðir, auk aðferða læknisfræðinnar. Ég og læknirinn minn ræddum fram og til baka hvað væri hægt að gera í stöðunni og fyrsta árið fór í það. Fyrsta árið fór líka í það að venjast þessu og vera hræddur. Það var mikið myrkur þetta fyrsta ár. Ég átti það til að stara bara á vegginn, algjörlega miður mín,“ segir Svavar en hann er í fyrsta sinn að tjá sig um veikindin.

„Ég hef aldrei talað um þetta áður opinberlega. Það höfðu margir fjölmiðlar samband og vildu ræða þetta en mér fannst ég ekki hafa neitt að segja; ég var sjálfur enn að hugsa, venjast þessu og var ekki búinn að læra neitt af þessu,“ segir Svavar og bætir við að vegna barnanna hafi hann ekki viljað að umræða færi strax af stað í þjóðfélaginu.

„Ég hafði ekkert að gefa; ég var í miðju sundi. Ég átti eftir að komast upp að bakka og ná andanum. Ég ýtti öllum beiðnum frá mér en þar sem ég er þekktur vissu margir af þessu á endanum. Þannig að þótt ég vildi ekki opinbera þetta varð þetta svolítið eins og bleiki fíllinn í stofunni,“ segir Svavar og segir að í raun finnist sér ekki óþægilegt að tala um veikindin í dag.
„Það rann svo allt í einu upp fyrir mér að nú væri ég tilbúinn að ræða þetta; ég hef eitthvað að segja. Kannski get ég miðlað einhverju; kannski get ég hjálpað einhverjum. Svo veit ég að fólk vill vita hvað er í gangi.“

Heltekur ekki hversdagslífið

Krabbameinið fær ekki að vera í fyrsta sæti í lífi Svavars; síður en svo.

„Ég nenni ekki alltaf að tala um þetta; ég hef ekki þörf fyrir það. Ég nenni ekki að ræða krabbameinið í röðinni í Bónus og heldur ekki að fá spurninguna: „Hvernig hefurðu það?“ Annaðhvort er ég ofan jarðar eða neðan. Við hjónin ræðum um þetta þegar við þurfum þess og tölum við krakkana þegar það er eitthvað að frétta. Þess á milli lifum við okkar lífi og sinnum okkar áhugamálum. Fjölskyldan er mjög samhent og við hittumst mikið og við erum ekki að velta okkur upp úr vandamálum. Þetta hefur ekki fengið að heltaka hversdagslífið.“
Svavar segist ekki finna til verkja.

„Það eina sem háir mér eru í raun eftirköst af lyfjameðferðum, sem er dofi í höndum og fótum. Það getur líka háð mér í að spila á hljóðfæri. En ég vinn bara með þetta; ég geri allt sem ég get og get næstum allt sem ég gat. Ég er slappur dagana eftir lyfjameðferð og þá bara stimpla ég mig út,“ segir hann og segist vera í meðferð núna á tveggja vikna fresti en það sé breytilegt hversu ört hann þurfi á meðferð að halda.

Prinsinn hefur í nógu að snúast og leyfir krabbameininu ekki …
Prinsinn hefur í nógu að snúast og leyfir krabbameininu ekki að heltaka hversdagsleikann. mbl.is/Ásdís

„Það fundust meinvörp í lungum og lifur en það er allur gangur á því hvort þau séu sýnileg.“

Blaðamaður þegir um stund og dettur svo ekkert annað í hug en að segja:
Helvítis vesen.

„Já, en ég er hættur að líta á þetta sem vesen. Svona er bara staðan. Mér hefur oft liðið verr fullkomlega heilbrigður.“

Lesa má viðtalið í heild sinni hér á mbl.is í vefútgáfu Morgunblaðsins.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »