Mesti samdráttur frá 2012

Markmið Íslands í þessum flokki er að ná 29% samdrætti …
Markmið Íslands í þessum flokki er að ná 29% samdrætti í losun árið 2030 miðað við 2005. Losun þessi hefur dregist saman um 8% árið 2019 miðað við árið 2005. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi dróst saman um 2% milli áranna 2018 og 2019 og er það mesti samdráttur sem mælst hefur frá árinu 2012.

Heildarlosun á Íslandi (án landnotkunar og skógræktar) árið 2019 nam 4.722 kílótonnum af CO2-ígildum. Það jafngildir 8% samdrætti frá árinu 2005 og 28% aukningu frá árinu 1990.

Sú aukning er mestmegnis vegna aukinnar málmbræðslu með tilkomu frekari stóriðju á fyrsta áratug aldarinnar, að því er fram kemur í tilkynningu á vef Umhverfisstofnunar.

Markmið Íslands í þessum flokki er að ná 29% samdrætti í losun árið 2030 miðað við 2005. Losun þessi hefur dregist saman um 8% árið 2019 miðað við árið 2005.

Árlegri skýrslu Umhverfisstofnunar um losun gróðurhúsalofttegunda var skilað til ESB og Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna (UNFCCC) 15. apríl 2021, í samræmi við skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum.  

mbl.is