Andlát: Árni Ólafur Ásgeirsson

Árni Ólafur Ásgeirsson.
Árni Ólafur Ásgeirsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Árni Ólafur Ásgeirsson kvikmyndaleikstjóri er látinn, 49 ára að aldri, eftir alvarleg veikindi. Þetta kom fram á vefnum Klapptré í gærkvöldi en Árni Ólafur lést í gærmorgun.

Árni Ólafur fæddist í Reykjavík 1972. Hann útskrifaðist í kvikmyndaleikstjórn frá hinum virta kvikmyndaskóla í Lodz í Póllandi 2001.

Stuttmynd hans, Anna’s dag (2003), með dönsku leikkonunni Iben Hjelje í aðalhlutverki, vakti athygli á hátíðum víða og var meðal annars verðlaunuð á Clermont-Ferrand-hátíðinni. Áður hafði hann skrifað handrit kvikmyndarinnar Maður eins og ég (2002) ásamt Róbert Douglas.

Árni Ólafur frumsýndi fyrstu bíómynd sína, Blóðbönd, árið 2006. Myndin hlaut fimm tilnefningar til Edduverðlauna og var einnig tilnefnd til Amanda, norrænu kvikmyndaverðlaunanna. Hún var jafnframt sýnd í Discovery hluta Toronto-hátíðarinnar að því er segir á kvikmyndavefnum Klapptré.

Næsta bíómynd Árna var Brim (2010) sem gerð var í samvinnu við leikhópinn Vesturport. Myndin var tilnefnd til 11 Edduverðlauna og hlaut sex Eddur, þar á meðal sem kvikmynd ársins. Hún var einnig tilnefnd til Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs og sýnd á fjölda hátíða víða um heim.

Lói litli lendir í ýmsum ævintýrum.
Lói litli lendir í ýmsum ævintýrum.

Árni Ólafur var leikstjóri teiknimyndarinnar Lói – þú flýgur aldrei einn (2018) sem segir af lóuunga sem er ófleygur þegar haustið kemur og farfuglarnir fljúga suður á bóginn. „Hann þarf því að kljást við miklar áskoranir til að lifa af harðan veturinn og eiga möguleika á að sameinast aftur ástvinum sínum að vori. Þetta er ein dýrasta kvikmynd sem Íslendingar hafa gert og einnig sú kvikmynd íslensk sem líklegast hefur farið hvað víðast um heimsbyggðina og flestir hafa séð,“ segir á Klapptré.

Árni Ólafur hafði nýlokið vinnslu sinnar fjórðu kvikmyndar, Wolka, í Póllandi og á Íslandi. Hún er væntanleg síðar á þessu ári.

Í vor stóð til að hann hæfi tökur á þáttaröð í Póllandi fyrir Netflix, eftir eigin handriti, Ottós Geirs Borg og fleiri.

Eftirlifandi eiginkona hans er Marta Luiza Macuga leikmyndahönnuður. Sonur þeirra er Iwo Egill Macuga Árnason.

Hægt er að lesa nánar um feril Árna Ólafs á Klapptré.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert