Stefna á 20 til 200 manna takmörkun í byrjun maí

„Svo þegar 75% markinu er náð í síðari hluta júní …
„Svo þegar 75% markinu er náð í síðari hluta júní gerum við ráð fyrir að öllum takmörkunum verði aflétt,“ segir Svandís. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra kynnti afléttingaáætlun á ríkisstjórnarfundi í morgun og talaði í því samhengi um fjórar vörður á leið til afléttingar samkomutakmörkunum vegna kórónuveirufaraldursins. Gert er ráð fyrir 20 til 200 manna fjöldatakmörkunum í byrjun næsta mánaðar.

Þetta kom fram í máli Svandísar að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun.

Vörðurnar fjórar miðar Svandís við það þegar ákveðinn hluti Íslendinga er búinn að fá að minnsta kosti fyrri sprautu gegn Covid-19; 25%, sem er staðan núna, 35% í byrjun maí, 50% í lok maí og í lok júní þegar 75% fullorðinna eiga að hafa fengið eina sprautu.

„Við erum í raun og veru að setja upp fjórar vörður sem eru markaðar af því hversu margir hafa fengið fyrri sprautu. Fyrsta varðan, sem er þegar 25% hafa fengið fyrri sprautu, er í raun og veru að baki, það er miður apríl. Það er þegar við fórum upp í 20 manna fjöldatakmörk, tveggja metra reglu og opnun sundlauga, líkamsræktarstöðva o.s.frv,“ segir Svandís í samtali við mbl.is. 

Kort/Heilbrigðisráðuneytið

Fyrirvarar um framgang bólusetninga o.fl.

Gert er ráð fyrir að í byrjun maí hafi 35% þeirra 280.000 sem boðin verður bólusetning fengið fyrstu sprautuna. Þá er stefnt á að nálægðartakmörkun verði færð niður úr tveimur metrum í einn.

„Þá gerum við ráð fyrir að fjöldatakmörkun geti farið upp í 20 til 200 manns. Þriðja skrefið er í síðari hluta maí þegar við erum komin með 50% og þá geti fjöldatakmarkanir farið upp í 100 til 1.000 manns. Svo þegar 75% markinu er náð í síðari hluta júní gerum við ráð fyrir að öllum takmörkunum verði aflétt,“ segir Svandís og bætir við:

„Þetta er auðvitað með þessum þekktu fyrirvörum um framgang bólusetninga, um mat sóttvarnalæknis á stöðu faraldursins á hverjum tíma en við teljum vera fullt efni til þess að draga upp þessa áætlun.“

Hér má lesa nánar um tillögu stjórnvalda um afléttingar.

Fréttin hefur verið uppfærð

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert