Tvær vélar væntanlegar frá hááhættusvæðum

Bann við ónauðsynlegum ferðum frá tilgreindum áhættusvæðum vegna kórónuveirufaraldursins tók …
Bann við ónauðsynlegum ferðum frá tilgreindum áhættusvæðum vegna kórónuveirufaraldursins tók gildi á miðnætti. mbl.is/Árni Sæberg

Tvær flugvélar eru væntanlegar til landsins frá skilgreindum hááhættusvæðum; annars vegar vél frá Amsterdam klukkan 15.25 og hins vegar vél frá Varsjá klukkan 23.20. Ný reglugerð um sótt­kví, ein­angr­un og sýna­töku við landa­mæri Íslands vegna Covid-19 tók gildi á miðnætti.

Þeim sem koma frá skilgreindum hááhættusvæðum er skylt að dvelja í sóttkví í sóttvarnahúsi nema þeir geti framvísað vottorði um bólusetningu, vottorði um fyrri sýkingu eða vottorði um mótefni. 

Gylfi Þór Þor­steins­son, for­stöðumaður sótt­varna­húsa, segir að alls sé von á 130 manns til landsins í vélunum tveimur og hann býst við því að meirihluti farþega komi í sóttvarnahús.

Fosshótel hefur verið notað sem sóttkvíarhótel.
Fosshótel hefur verið notað sem sóttkvíarhótel. mbl.is/Árni Sæberg

„Við munum að öllum líkindum opna Hótel Storm, sem er hérna á móti okkur, síðar í dag eða kvöld og þá erum við í góðum málum í bili,“ segir Gylfi.

Fosshótel hefur verið notað sem sóttkvíarhótel undanfarinn mánuð og auk þess er farsóttarhús á Rauðarárstíg, þar sem aðallega dvelja sýktir af kórónuveirunni.

Gylfi segir nóg starfsfólk fyrir sóttvarnamóttökurnar í bili en bætt verði við þar ef þurfa þyki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert