Íslandsstofa í samstarf við Business Sweden

Ársfundur Íslandsstofu fór fram í dag.
Ársfundur Íslandsstofu fór fram í dag. Haraldur Jónasson/Hari

Greint var frá samkomulagi Íslandsstofu og Business Sweden, systurstofu hennar í Svíþjóð, sem ætlað er að tryggja fyrirtækjum aðgang að alþjóðlegu neti viðskiptafulltrúa Business Sweden, á ársfundi Íslandsstofu í dag.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Íslandsstofu. 

Það segir að alls 450 starfsmenn á vegum Business Sweden í 42 löndum, hvers hlutverk er að styðja við framgang sænskra fyrirtækja erlendis, muni einnig þjónusta íslensk fyrirtæki eins og um sænsk væri að ræða. 

Anne Hallberg, ráðherra utanríkisviðskipta í Svíþjóð, ávarpaði ársfund Íslandsstofu í dag. Þar sagðist hún hafa mikla trú á gildi þess að styrkja samstarf Norðurlandanna og kynningarstarf útflutningsgreina á alþjóðlegum mörkuðum.

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, tók undir þau orð hennar og sagði rætur þessa samkomulags liggja í samstarfi Norðurlandanna um rekstur nýsköpunarhúsa í Bandaríkjunum og Asíu. 

„Auk þess að opna dyr fyrir íslensk fyrirtæki út í heim felst einnig í samkomulaginu að stofurnar munu vinna saman í markaðs- og kynningarmálum í sértækum verkefnum þar sem þau eigi sameiginlegra hagsmuna að gæta,“ segir í tilkynningu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert