N1 opnar aftur eftir eldsvoða

Eldur kom upp í þaki Hyrnunnar í Borgarnesi.
Eldur kom upp í þaki Hyrnunnar í Borgarnesi. Ljósmynd/Aðsend

Þjónustustöðin N1 í Borgarnesi opnar dyr sínar aftur upp úr hádegi í dag, eftir að eldur kom upp í þaki stöðvarinnar í gær.

Ekki verður hægt að opna veitingasal N1 strax, en það rými sem snýr að eldsneytisdælum verður opnað og þar með einnig fyrir sölu á drykkjum, sælgæti, pylsum og fleiri vörum. Vonir standa til að hægt verði að opna allt húsnæðið í Borgarnesi fyrir helgi, segir í tilkynningu.

Vegna hreinsunarstarfs verða salerni þjónustustöðvarinnar lokuð í dag en reikna má með að þau verði opin að nýju strax á morgun, fimmtudag.

„N1 vonar að viðskiptavinir verði ekki fyrir óþægindum vegna þessarar stöðu og starfsfólk fyrirtækisins leggur alla áherslu á að koma rekstri þjónustustöðvar N1 í Borgarnesi í samt horf innan fárra daga,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is