„Hann talaði hátt og blótaði mikið“

Ma­rek Moszczynski er ákærður fyr­ir brennu, mann­dráp og til­raun til …
Ma­rek Moszczynski er ákærður fyr­ir brennu, mann­dráp og til­raun til mann­dráps með því að hafa kveikt í á þrem­ur stöðum í hús­inu við Bræðra­borg­ar­stíg. Þrír lét­ust í brun­an­um. mbl.is/Kristinn Magnússon

Marek Moszczynski var augljóslega mjög veikur þegar geðlæknir reyndi að ræða við hann daginn eftir eldsvoðann við Bræðraborgarstíg síðasta sumar. Þrír geðlæknar sögðu við aðalmeðferð í máli gegn Marek, sem er er ákærður fyr­ir brennu, mann­dráp og til­raun til mann­dráps með því að hafa kveikt í á þrem­ur stöðum í hús­inu við Bræðra­borg­ar­stíg, að hann hafi ekki verið fær um að stjórna gjörðum sínum þegar eldsvoðinn varð.

Þrír létust í brunanum 25. júní en Ma­rek neit­ar sök og hann er met­inn ósakhæf­ur sam­kvæmt yf­ir­mati geðlækna. Verjandi Mareks óskaði eftir því að þinghald væri lokað á meðan geðlæknar ræddu ástand hans eða að öðrum kosti mættu fjölmiðlar ekki fjalla um það sem kæmi þar fram. Dómarinn hafnaði þeim kröfum.

„Hann talaði hátt og blótaði mikið. Það var erfitt að ná nokkru samhengi í það sem hann sagði. Hann endurtók það sama aftur og aftur og talaði í hringi,“ sagði einn geðlæknirinn um fyrsta fund hans og Mareks daginn eftir brunann.

Var með magasár og óttaðist að það væri banvænt

Í ljós kom að Marek hafði verið veikur frá því í byrjun maí og lést um tólf kíló. Hann lá inni á Landspítala í nokkra daga með magasár en um tíma var talið að um krabbamein væri að ræða. Fyrir dómi kom fram að Marek taldi veikindin ógna lífi hans og komst ekki að hinu sanna fyrr en eftir brunann.

Umræddur geðlæknir ræddi við Marek degi síðar, 27. júní, og ástand hans var svipað og við fyrsta fund þeirra. 

Hann hafi enn verið veikur í geðrofseinkennum 3. júlí og talað samhengislítið. Tíunda júlí var Marek rólegri og gat gefið samfelldari mynd og sögu af því sem hafði gerst. Ástand hans hafi síðan verið orðið mun betra 27. júlí.

Geðlæknirinn ræddi við vinnufélaga Mareks sem sagði hann vandræðalausan. Skömmu fyrir brunann hafi hann hins vegar verið ör og ólíkur sjálfum sér. 

„Það er engin spurning um að ef sök sannast á hann hafi hann ekki verið fær um að stjórna gjörðum sínum,“ sagði geðlæknirinn. Marek hafi verið í geðrofsástandi 25. júní í fyrra og líklega í maníu.

Ósakhæfur en ætti að vera undir eftirliti

Í síðasta viðtali Mareks og geðlæknisins hafi hann verið rólyndismaður sem svaraði öllum spurningum skýrt og greinilega. 

Geðlæknirinn ítrekar að í hans huga er enginn vafi á að Marek er ekki sakhæfur og mjög ólíklegt sé að hann geri sér upp veikindi til að komast undan fangavist. Engin önnur dæmi eru um geðrofsástand, fyrir utan óljósar fregnir þess efnis frá Póllandi fyrir tæpum 40 árum.

Geðlæknirinn telur rétt að ef Marek verði fundinn sekur að hann verði undir eftirliti réttargeðdeildar eða einhverju slíku.

Tveir aðrir geðlæknar sem komu fyrir dóm tóku undir með þeim fyrsta varðandi ósakhæfi Mareks, ef hann yrði fundinn sekur.

Enn fremur hafi magasárið og mögulegar fregnir af banvænum sjúkdómi skapað þetta geðrofsástand sem hann hafi verið í síðasta sumar. Óvenjulegt sé að einkenni svipuð þessum komi fram á þessum aldri, þótt það sé alls ekkert óhugsandi. 

Eðlilegast væri að fagaðilar mætu ástand Mareks og hann yrði vistaður á viðeigandi stofnun. Hversu lengi það yrði sé ómögulegt að segja til um.

Skýrslutökur halda áfram á föstudag áður en munnlegur málflutningur fer fram.

mbl.is