16 andlát og níu fengið blóðtappa

Gríðarlegur fjöldi hefur verið bólusettur undanfarna tvo daga.
Gríðarlegur fjöldi hefur verið bólusettur undanfarna tvo daga. mbl.is/Kristinn Magnússon

Alls hafa 50 tilkynningar borist til Lyfjastofnunar Íslands varðandi mögulegar alvarlegar aukaverkanir í kjölfar bólusetninga við Covid-19. Af þeim eru 16 andlát og níu vegna blóðtappa. Af þeim sem hafa látist eru langflestir aldraðir og eða fólk með staðfesta undirliggjandi sjúkdóma.

Af öllum alvarlegu tilkynningunum vegna gruns um aukaverkun hafa alls borist níu tilkynningar um blóðtappa í kjölfar bólusetningar gegn Covid-19; fimm fyrir Vaxzevria (AstraZeneca), þrjár fyrir Comirnaty (BioNTech/Pfizer) og ein fyrir bóluefni Moderna.

Þetta kemur fram í skriflegu svari frá Lyfjastofnun við fyrirspurn mbl.is. Þess ber að geta að mjög mikill munur er á því hversu mikið hefur komið til landsins af hverju bóluefni en langflestir hafa verið bólusettir með bóluefni Pfizer en mjög fáir með bóluefni Moderna. Byrjað var að bólusetja með bóluefni Janssen í gær og ekki komin nein reynsla á það hér á Íslandi. 

Líkt og fram kom í máli Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis á upplýsingafundi almannavarna 15. apríl þá eru miklu meiri líkur á blóðtappa sem alvarlegri aukaverkun Covid-19 en af bólusetningu við sjúkdómnum. Þar kom fram að 20-30% Covid-sjúklinga fái blóðsegavandamál. 0,1% almennings í Bandaríkjunum fær blóðsegavandamál árlega og 0,3% þeirra kvenna sem taka getnaðarvarnapilluna fá blóðsegavandamál að sögn Þórólfs.  

Í gærmorgun höfðu 34.492 ein­stak­ling­ar verið full­bólu­sett­ir hér á landi eða 11,7% lands­manna. Bólu­setn­ing er haf­in hjá 52.546 ein­stak­ling­um. Alls hafa verið gefn­ir 121.530 skammt­ar af bólu­efni á Íslandi frá því bólu­setn­ing hófst í lok des­em­ber en þessar tölur eru frá því í morgun. 

Lyfja­stofn­un hefur borist 781 til­kynn­ing­ um mögu­leg­ar auka­verk­an­ir í kjöl­far bólu­setn­ing­ar við Covid-19. Alls 281 með bólu­efni Pfizer-Bi­oNTech, 173 með bólu­efni Moderna og 327 með AstraZeneca. Lang­flest­ar þeirra eru til­kynn­ing­ar um mögu­leg­ar væg­ar auka­verk­an­ir.

Lyfja­stofn­un tek­ur fram að þær töl­ur sem birt­ast á vef Lyfja­stofn­un­ar snúa að til­kynn­ing­um um grun um auka­verk­un og ekki er víst að til­kynn­ing­arn­ar end­ur­spegli raun­veru­leg­ar auka­verk­an­ir af bólu­efn­un­um en það er metið í hverju til­felli fyr­ir sig. 

„Þegar tilkynningar berast Lyfjastofnun er ekki vitað hvort um orsakasamhengi milli bólusetningar og tilkynntra tilvika sé að ræða. Skoðun á öllum tilkynningum er hluti af hefðbundnu lyfjagátarkerfi Lyfjastofnunar, þar sem leitast er við að fá frekari upplýsingar um tilkynnt tilvik þegar upplýsingar sem geta varpað betra ljósi á tilvikin skortir.

Tilkynningarnar eru síðan metnar ásamt öllum öðrum tilkynntum tilvikum í samevrópskum lyfjagátargagnagrunni (Eudravigilance), í samstarfi við aðrar stofnanir á EES-svæðinu. Þannig er hægt að meta upplýsingar í hverju tilfelli fyrir sig en einnig skoða samnefnara á milli tilfellanna, en reynist mynstur svipað í tilkynntum tilfellum styður það við mat á orsakasambandi,“ segir í skriflegu svari Lyfjastofnunar Íslands. 

Comirnaty (BioNTech/Pfizer):

29 alvarlegar tilkynningar hafa borist.

  • 15 þeirra varða andlát. 14 andlát vörðuðu aldraða einstaklinga, 12 þeirra með staðfesta undirliggjandi sjúkdóma. Eitt andlátið varðaði einstakling sem ekki var aldraður en með marga undirliggjandi sjúkdóma.
  • Af hinum 14 þá varða 10 sjúkrahúsvist (þar af tvær lífshættulegt ástand).
  • Fjórar tilkynningar teljast klínískt mikilvægar og þar með flokkaðar sem alvarlegar (tilkynningar sem metnar eru sem klínískt mikilvægar geta varðað ýmis einkenni, t.d. blóðtappa þar sem ekki kom til innlagnar á sjúkrahús.)
  • Aldursbil sjúklinga (5 ára aldursbil) þar sem tilkynnt var um grun um alvarlega aukaverkun er 30-95 ára. Meðalaldur er 80 ár. 

Covid-19 Vaccine Moderna:

Fimm alvarlegar tilkynningar hafa borist.

  • Fjórar tilkynningar varða sjúkrahúsvist.
  • Ein tilkynning telst klínískt mikilvæg og þar með flokkuð sem alvarleg (tilkynningar sem metnar eru sem klínískt mikilvægar geta varðað ýmis einkenni, t.d. blóðtappa þar sem ekki kom til innlagnar á sjúkrahús).
  • Aldursbil sjúklinga (fimm ára aldursbil) þar sem tilkynnt var um grun um alvarlega aukaverkun er 20-45 ára. Meðalaldur er 32,8 ár. 

Vaxzevria (AstraZeneca):

16 alvarlegar tilkynningar hafa borist.

  • Ein tilkynning varðar andlát eldri einstaklings.
  • 12 tilkynningar varða sjúkrahúsvist (þar af ein lífshættulegt ástand).
  • Þrjár tilkynningar teljast klínískt mikilvægar og þar með flokkaðar sem alvarlegar.
  • Aldursbil sjúklinga (fimm ára aldursbil) þar sem tilkynnt var um grun um alvarlega aukaverkun er 25-75 ára. Meðalaldur 51,2 ár.

Lyfjastofnun bárust 237 tilkynningar um aukaverkanir lyfja í mars, nokkuð fleiri en í febrúar, en álíka margar og í janúar. Tilkynningar hvers mánaðar á þessu ári eru þó fleiri en áður bárust að jafnaði á heilu ári. Flestar tilkynninganna í mars voru tengdar bóluefnum gegn Covid-19 eða um 94%.

Af þessum tilkynningum tengdust 222 bóluefnum gegn COVID-19; 36 vegna Comirnaty (BioNTech/Pfizer), 23 vegna bóluefnis Moderna, og 163 vegna Vaxzevria frá AstraZeneca.

Fimmtán tilkynninganna tengdust öðrum lyfjum. Tuttugu og níu af tilkynningum marsmánaðar voru vegna gruns um alvarlega aukaverkun. Tuttugu og tvær þeirra tengdust bóluefnum; tíu vegna bóluefnis Pfizer, tíu vegna AstraZeneca, og tvær vegna Moderna. Hinar sjö tengdust öðrum lyfjum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert