Ásgeir vildi ekki mæta fyrir þingnefnd

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri telur sjálfan sig ekki rétta manninn til að mæta á fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis til að ræða áhrif hagsmunahópa í íslensku samfélagi.

Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri-grænna, greinir frá því í færslu á Facebook að hann hefði óskað eftir því við seðlabankastjóra að hann mætti á fund nefndarinnar til að ræða ummæli sem hann lét falla í viðtali við Stundina á dögunum.

Í viðtalinu fór Ásgeir þungum orðum um framferði útgerðarfyrirtækisins Samherja gegn opinberum starfsmönnum, svo sem með kæru fyrirtækisins sem beint var að fimm starfsmönnum Seðlabankans. Þá sagði hann að landinu væri að miklu leyti stjórnað af hagsmunahópum. Viðtalið hefur vakið mikla athygli og meðal annars orðið tilefni nokkurra ræðna í ræðustól Alþingis.

Í svarbréfi Seðlabankans til Kolbeins, þar sem hann greinir frá þeirri ákvörðun að þekkjast ekki boðið, segir meðal annars: „Efni viðtalsins beindist einkum að því að vekja athygli á að margvíslegir hagsmunahópar eru fyrirferðarmiklir í íslensku þjóðlífi og hafa áhrif á stefnumótun, stefnu og löggjöf, til að mynda hagsmunasamtök launþega, vinnuveitenda, atvinnurekenda, lífeyrissjóðir og fleiri.“

Uppfært 20:34
Í upphaflegri útgáfu fréttarinnar sagði að svarið hefði borist frá seðlabankastjóra sjálfum. Hið rétta er að svarið barst frá bankanum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina