„Ég er að verða atvinnulaus“

Snorri kampakátur á lokametrunum í því sem urðu 13 ár …
Snorri kampakátur á lokametrunum í því sem urðu 13 ár hjá Landssambandi lögreglumanna þegar upp var staðið – og nú er einmitt komið að því að standa upp úr formannsstólnum. Ljósmynd/Aðsend

Snorri Magnússon víkur úr formannssæti Landssambands lögreglumanna nú í vikunni eftir þrettán ára setu, allar götur frá hrunárinu eftirminnilega 2008 hefur hann staðið í fremstu víglínu kjara- og réttindamála íslenskra lögreglumanna og háð þar marga hildina, setið þrotlausa fundi um kjarasamninga, þar sem sigrar hafa unnist en fórnir jafnframt verið færðar, séð gamla lögregluskólann verða að háskólanámi á Akureyri og eygir nú undir lok formannstíðar sinnar von um þann áfanga í réttindamálum, að kærur vegna starfa lögreglumanna verði í framtíðinni á hendur lögregluembættum fremur en lögregluþjónum persónulega.

„Formlega hætti ég á morgun,“ segir Snorri í þessu samtali sem fór fram í hádeginu á mánudaginn. „Þá verður haldið rafrænt þing til að afgreiða þessi formsatriði svo stjórnarskipti geti farið fram með eðlilegum hætti og svo er ég að hnýta einhverja enda út vikuna,“ bætir formaðurinn fráfarandi við og þar með tekur nýr maður sér stöðu í brúnni, Fjölnir Sæmundsson.

Fram þjáðir menn í þúsund löndum. Snorri í miðbænum 1. …
Fram þjáðir menn í þúsund löndum. Snorri í miðbænum 1. maí 2008 ásamt öðrum sjóuðum stéttarfélagsmanni, Guðbirni Guðbjörnssyni, formanni Tollvarðafélags Íslands og auk þess heimsþekktum óperusöngvara. Ljósmynd/Aðsend

Snorri hóf störf í lögreglunni í nóvember 1984, hann á ættir að rekja vestur á firði, austur undir Eyjafjöll og í Biskupstungur, alinn upp í Vesturbænum, miðbænum og Breiðholtinu í Reykjavík, búsettur á Seltjarnarnesi lengst ævinnar, en flutti aftur til Reykjavíkur árið 2014. Húsasmiður og lögreglumaður að mennt, þriggja barna faðir, kvæntur Hafdísi Jónu Gunnarsdóttur, starfsmanni hjá Hertz-bílaleigunni á Íslandi.

„Hér varð hrun“

Eðlilega er margs að minnast úr víglínu fjölmenns stéttarfélags á rúmum áratug þar sem Snorri gegndi í fyrstu formannsstöðu sem hann var kosinn í, en framkvæmdastjóri LL var þá Steinar Adolfsson. Snorri var svo ráðinn framkvæmdastjóri samhliða formennskunni 2014, en reyndi fyrst ýmsar útfærslur til að láta formennskuna ganga upp samhliða stöðu sem rannsóknarlögreglumaður. Þar játaði hann sig að lokum sigraðan og tók sér leyfi frá lögreglustörfum til að sinna stéttarfélaginu alfarið.

Lögreglumenn gallharðir í kjarabaráttunni framan við Stjórnarráðið árið 2015 með …
Lögreglumenn gallharðir í kjarabaráttunni framan við Stjórnarráðið árið 2015 með Snorra í broddi fylkingar. Þarna hafði verið setið við samningaborðið á hverju ári frá bankahruni þar sem kjarasamningarnir voru aldrei framlengdir um nema ár í senn – í sjö ár. Ljósmynd/Aðsend

Eldskírnina fékk hann þó strax í kjarasamningunum haustið 2008. „Ég tók við formannsembættinu í maí 2008 þegar allt var í blússandi uppsiglingu hér í samfélaginu eins og menn muna. Svo hrynur allt bankakerfið eins og það leggur sig um haustið og einmitt þá, í október, hefjast kjaraviðræður á almennum og opinberum markaði og það var hálf-útópískt ástand að hefja kjaraviðræður í húsnæði ríkissáttasemjara sem þá var fullt af mönnum í teinóttum jakkafötum frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og hinum og þessum öðrum sem voru komnir til að bjarga því sem bjargað varð,“ rifjar Snorri upp.

Málið var að sögn Snorra einfalt, einn alversti tími Íslandssögunnar til að standa í kjarasamningum var upp runninn og minna en ekkert svigrúm til launahækkana í þjóðfélaginu. „„Hér varð hrun,“ var setning sem heyrðist í samningum allt til ársins 2015,“ segir Snorri. „Við náðum þó með herkjum að halda því sem við höfðum og aðeins að bæta í. Þó að sá árangur sem náðist þarna hafi ekki verið stór var hann mjög góður miðað við ástandið í samfélaginu. Þarna stóð til að taka af okkur hluta þeirra launa sem við vorum að fá greidd aukalega, sem voru í þessu sérstaka álagi sem við vorum með,“ segir formaðurinn.

Fimm formenn. Sandra B. Franks frá Sjúkraliðafélaginu, Sonja Ýr Þorbergsdóttir …
Fimm formenn. Sandra B. Franks frá Sjúkraliðafélaginu, Sonja Ýr Þorbergsdóttir frá BSRB, Árni Stefán Jónsson frá SFR, Snorri og Garðar Hilmarsson frá Starfsmannafélagi Reykjavíkur. Ljósmynd/Aðsend

Tvisvar fyrir gerðardóm

LL vann varnarsigur í viðræðunum haustið 2008, en björninn var langt í frá unninn, viðræðurnar héldu áfram árin 2009, 2010 og allt til 2015. „Þarna var bara framlengt um ár í senn því enginn vissi hver staðan yrði að ári liðnu og tvisvar á þessu tímabili fórum við með okkar mál fyrir þennan gerðardóm sem, að okkur fannst, gerði ekkert fyrir okkur, við fengum bara þá samninga sem voru á borðinu og lítið til viðbótar, þó nokkru meira í seinni gerðardómnum en við höfðum búist við,“ rifjar Snorri upp.

Að lokum hafi samningur komist á árið 2015, samið þar til 2019 og urðu þá meðal annars breytingar á lífeyrissjóðafyrirkomulagi með jöfnun lífeyrisréttinda á milli launamarkaða. „Þá náðum við því fram að almenni markaðurinn var hífður upp til okkar, en við ekki færðir niður til þeirra sem er auðvitað hið besta mál. Hin hliðin á peningnum er hins vegar að við sem erum á opinbera vinnumarkaðnum erum náttúrulega ekki á sömu launum og fólk á almenna markaðnum, meðalmunurinn er eitthvað í kringum 16 til 18 prósent og þótt lífeyrisréttindin væru jöfnuð þarna urðum við að láta í minni pokann og sætta okkur við þá ákvörðun að launajöfnun færi fram á sex til tíu árum frá janúar 2017 að telja.“

Nám á háskólastigi mikil framför

Talið berst frá hinum eilífa vígvelli samningaborðsins að lögreglunámi á háskólastigi sem varð að raunveruleika norðan heiða, við Háskólann á Akureyri, árið 2016 og það eftir vægast sagt langt þóf þar sem Snorri bendir á að lesa megi greinar í Lögreglumanninum, tímariti landssambandsins, allt aftur til 1970, sem fjalli um íslensk lögreglufræði á háskólastigi.

Ríkisstjórnin hvött til dáða við kjarasamninga opinberra starfsmanna árið 2015. …
Ríkisstjórnin hvött til dáða við kjarasamninga opinberra starfsmanna árið 2015. LL var þá í samfloti við SFR (nú Sameyki) og Sjúkraliðafélagið sem bæði voru í verkfalli. Forsvarsmenn félaganna afhenda Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra sameiginlega yfirlýsingu fundar. Ljósmynd/Aðsend

„Það var einmitt líka á þessu örlagaríka ári, 2008, sem landssambandið setti fram formlega kröfu til stjórnvalda um að þetta skref yrði tekið og það er svo árið 2016 sem Ólöf heitin Nordal [þáverandi innanríkisráðherra] tekur þá ákvörðun um sumarið, að þessi leið skuli farin, eftir að tveir starfshópar hafa skilað af sér miklum og góðum skýrslum um þetta mál,“ segir Snorri.

Fyrirvari á færslu námsins upp á háskólastig hafi þó verið býsna knappur, að mati Snorra, landssambandið hafi séð fyrir sér að lögregluskólinn yrði keyrður áfram að minnsta kosti tvo árganga samhliða því að námi á háskólastigi yrði komið á.

„Nú er nýlega komin út skýrsla alþjóðlegs aðila sem gerir úttekt á háskólanámi og hún er frekar neikvæð í garð þessa náms og utanumhalds um það, eins og það fór af stað. Þetta táknar ekki að þarna séu á ferð einhverjir vankantar sem ekki er hægt að sníða af og ég tek það skýrt fram, að það var gríðarleg framför að fá lögreglunámið upp á háskólastig og er mál sem hefur lengi legið á stéttinni,“ segir Snorri.

Samninganefndir stéttarfélaganna þriggja, LL, SFR og Sjúkraliðafélags Íslands, fyrir utan …
Samninganefndir stéttarfélaganna þriggja, LL, SFR og Sjúkraliðafélags Íslands, fyrir utan húsnæði ríkissáttasemjara í samningunum 2015. Ljósmynd/Aðsend

Bætir hann því við að auðvitað komi það misvel út fyrir nemendur, sem búsettir eru annars staðar á landinu, að þurfa að sækja staðbundnar lotur til Akureyrar, en það gildi þó um flest háskólanám, hvar sem skólinn er staðsettur, að nemendur þurfi að hliðra til á ýmsan hátt í lífi sínu til að koma því að. Í þessum efnum hafi enn fremur haft mjög mikið að segja hve þróun fjarnáms hafi verið komin langt við Háskólann á Akureyri þegar lögreglunám þar var að hefjast.

Spjallað við Kofi Annan, aðalritara Sameinuðu þjóðanna, í Bosníu, þar …
Spjallað við Kofi Annan, aðalritara Sameinuðu þjóðanna, í Bosníu, þar sem Snorri starfaði sem íslenskur lögreglumaður á vegum alþjóðalöggæslusveita Sameinuðu þjóðanna – International Police Task Force (IPTF) árin 1999 og 2000. Ljósmynd/Aðsend

„Við horfðum á það líka að þetta gæti orðið til þess að einstaklingar sem byggju utan suðvesturhornsins sæktu þetta nám og þar með væri orðið auðveldara fyrir minni lögregluliðin á landinu að ráða til sín fólk. Nú er svo sem ekki búið að gera neinar faglegar úttektir á því hvort þetta markmið hafi náðst að öllu leyti, en að einhverju leyti hefur það náðst,“ segir Snorri, vongóður um framtíð íslensks lögreglunáms á háskólastigi.

Stofnanir taki við kærum

Réttindamál lögreglumanna, svo sem varðandi kærur sem að þeim er beint, er málaflokkur sem lengi hefur verið ofarlega á baugi hjá stéttarfélaginu þótt á brattann hafi verið að sækja. Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri gagnrýndi nýverið í viðtali að hægt væri að beina kærum að starfsfólki opinberra stofnana vegna starfa þess, fremur en stofnuninni sjálfri sem vinnuveitanda, og segir Snorri ummæli Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra, um hugsanlega lagasetningu til verndar starfsmönnum, blása lögreglumönnum von í brjóst.

Í Monróvíu, höfuðborg Líberíu, þar sem Snorri starfaði sem yfirmaður …
Í Monróvíu, höfuðborg Líberíu, þar sem Snorri starfaði sem yfirmaður öryggissveita Sameinuðu þjóðanna (Chief Security Officer) árin 2003 til 2005 í því sem þá var stærsta friðargæsluverkefni SÞ frá upphafi vega. Ljósmynd/Aðsend

„Það hefur í raun ekkert verið að gerast í þessum málum fyrr en allt í einu núna þegar við erum að sjá þetta gerast gagnvart starfsfólki Seðlabanka Íslands, þar sem verið er að hjóla í starfsfólkið sem einstaklinga í stað þess að fara í stofnunina sem slíka. Þetta er mjög sambærilegt við lögreglumenn sem eru ekki að gera neitt annað en að sinna sinni vinnu í umboði stjórnvalda,“ segir Snorri og bendir á að þegar grunur komi upp um einhvers konar handvömm lögreglumanns í starfi væri eðlilegast að sótt væri að því embætti sem viðkomandi starfar hjá, að minnsta kosti í upphafi.

Slíkt þekkist víðast hvar í Evrópu og bendir Snorri sérstaklega á fyrirkomulag í Finnlandi máli sínu til stuðnings. „Við teljum okkur klárlega munu eiga undir slík ákvæði verði þau að lögum og höfum lengi barist fyrir því. Staðan er óbreytt núna, komi kæra fram beinist hún að þeim einstaklingi sem hlut á að máli, ekki vinnuveitandanum,“ segir Snorri og tekur dæmi um hvernig slíkt liti út í ranni annarrar starfsemi.

„Hugsaðu þér mann sem færi með bílinn sinn á verkstæði og fengi hann í einhverju tjóni til baka. Hann sækir ekki að starfsmanninum sem var að gera við bílinn heldur fer hann í fyrirtækið og rekur mál sitt gagnvart því,“ nefnir hann sem dæmi og kveður það von stéttarfélagsins, og lögreglumanna í landinu, að þessi liður réttindamála komist á rekspöl í kjölfar nýlegrar umræðu og athygli forsætisráðherra á knýjandi málefni.

Lögregla í skugga faraldurs

Undir lokin er freistandi að spyrja formanninn fráfarandi þess hvað nú taki við hjá honum, vel rúmlega áratugar starfi við réttinda- og kjaramál íslenskra lögreglumanna er senn lokið og gjörólíkur vettvangur hlýtur að vera fyrir stafni.

„Ég hef í sjálfu sér ekki tekið neina formlega ákvörðun um það enn sem komið er, en staðan er sú, að á sínum tíma gerði ég samning við þáverandi lögreglustjóra, Stefán Eiríksson, um að ég sinnti þessum störfum, sem ég nú er að hverfa frá, í launalausu leyfi frá minni stöðu hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Þannig að staða mín er væntanlega til þótt ég geri fastlega ráð fyrir að einhver annar sé að sinna henni í dag. Nú þarf ég bara að ræða við sitjandi lögreglustjóra og athuga hver staðan er og hvort hún vill yfir höfuð fá mig aftur. Ég er að verða atvinnulaus eins og staðan er í dag,“ segir Snorri og hlær við.

Árabilið 2001 til 2003 starfaði Snorri hjá öryggisdeild Sameinuðu þjóðanna …
Árabilið 2001 til 2003 starfaði Snorri hjá öryggisdeild Sameinuðu þjóðanna (UN Security) sem yfirmaður aðgerðastjórnar (Chief of Security Operations) í Kósovó þar sem þessi mynd er tekin. Ljósmynd/Aðsend

Fyrst ætli hann þó að taka sér sumarleyfi og velta stöðunni fyrir sér, erfitt tímabil er að baki hjá Landssambandi lögreglumanna eins og flestum öðrum í kórónuveirufaraldrinum sem nú hefur verið sem myllusteinn um háls heimsbyggðarinnar vel á annað ár.

„Þetta er búið að vera skelfilegt hjá okkur eins og öllum öðrum, við höfum ekki getað haldið fundi með eðlilegum hætti, þetta hefur allt verið í gegnum Teams, sem reyndar hefur þróast gríðarlega mikið síðustu mánuði og er nú orðið mun betra forrit að vinna í,“ segir Snorri af vettvangi sem vafalaust er mörgum kunnugur.

Eðlilega sé þó gjörólíkt að eiga öll samskipti við samstarfsfólk gegnum skjái og míkrófóna og ástandið geri ekki síst stórt strik í reikning þings Landssambandsins sem er á dagskrá í vikunni og lýkur í dag samkvæmt áætlun. „Þetta verður haldið rafrænt og þau málefni afgreidd sem verður að afgreiða, svo verður þinginu bara frestað þar til hægt verður að ljúka því með eðlilegum hætti.“

Kórónufárið hafi auðvitað teygt sig um gervallt lögregluliðið. „Lögreglustöðvar hólfaðar niður út og suður og enginn samgangur á milli þeirra. Öll samskipti við fólk hafa líka bara orðið þyngri, allir útataðir í grímum og svo þessi áhætta, þar til búið var að sprauta allt liðið, að fólk smitaðist af Covid í útköllum sem var að gerast hjá okkur, lögreglumenn misstu af fæðingum barna sinna og skírnum og fleiru af því að þeir voru í sóttkví og svo framvegis. Þetta hefur bara verið gríðarlega erfitt eins og hjá öllum, en við sjáum nú vonandi fram á bjartari tíma núna.“

Antíkhúsgögn og mótorhjól

Sjálfur hefur Snorri að nógu að hverfa í því fríi sem hann tekur sér nú. Hann er með góða aðstöðu til að sinna smíðinni heima við og hefur verið að dunda sér við að aðstoða vini og vandamenn við að gera upp antíkhúsgögn auk þess sem hann hefur verið að smíða sólpall við húsið, framkvæmd sem nú fær byr undir báða vængi með rísandi sól og frítíma.

Meðal þess sem formaðurinn, nú fyrrverandi, hyggst dunda sér við …
Meðal þess sem formaðurinn, nú fyrrverandi, hyggst dunda sér við í fríinu er að púsla þessu Yamaha V Star 1100-hjóli, árgerð 2000, saman, en það liggur nú í frumeindum inni í bílskúr hjá Snorra. Ljósmynd/Aðsend

„Ég hef líka verið að fljúga fjarstýrðum flugmódelum og fer í veiði árlega með góðu fólki upp á Arnarvatnsheiði og stefnir í þá ferð núna í júní. Svo á ég mótorhjól sem ég er að gera upp inni í skúr svo mig vantar ekki verkefnin, aðallega að mig vanti lengri sólarhring,“ segir Snorri Magnússon að lokum, fráfarandi formaður Landssambands lögreglumanna eftir þrettán ár á þeim vettvangi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert