Handahófs-bólusetning besta leiðin að hjarðónæmi

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar á fundinum.
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar á fundinum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ný hermilíkön þriggja vísindamanna Íslenskrar erfðagreiningar sýna að hjarðónæmi hefði náðst hraðar á Íslandi ef bólusett hefði verið í hækkandi aldursröð í miðri þriðju bylgju faraldursins, en ekki lækkandi aldursröð eins og síðan var gert. Einnig myndi hjarðónæmi nást hraðar ef bólusett hefði verið af handhófi á sama tíma. 

Þetta kom fram á blaðamannafundi í húsakynnum Íslenskrar erfðagreiningar, sem hófst klukkan 15:30. 

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra voru viðstaddar fundinn ásamt Þórólfi Guðnasyni sóttvarnalækni. Þau þrjú spurðu margra spurninga að erindi vísindamanna loknu en Katrín og Svandís þurftu frá að hverfa áður en blaðamönnum gafst færi á viðtali.

Líklega best að breyta bráðlega um „kúrs“

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir að líklega sé best að breyta um stefnu í bólusetningum hér á landi þegar búið verður að bólusetja alla yfir 60 ára aldri. Þá verður jafnvel skynsamlegt að bólusetja yngri fyrst eða bólusetja af handhófi. Það segir hann, og þeir vísindamenn sem að hermilíkönunum unnu, að sé besta leiðin í átt að hjarðónæmi.

„Bólusetningaráætlanir stjórnvalda stjórnast að miklu leyti af aðgengi að bóluefni og svo hins vegar af því hvernig er skynsamlegast að nýta það og í hvaða röð. Ég held að í ljósi þessa sem við sýndum í dag að þá væri ekki óskynsamlegt, þegar búið verður að bólusetja alla sextíu ára og eldri, að breyta um kúrs – ekki fara frá háum aldri og niður heldur kannski lágum aldri og upp eða jafnvel gera þetta með slembiúrtaki,“ sagði Kári við mbl.is að fundi loknum. 

„Þegar þú ert að tala um bólusetningu þá eru alltaf tvö meginmarkmið sem vaka fyrir fólki, annars vegar að vernda þá sem viðkvæmir eru og hins vegar að hefta útbreiðslu. Við erum í þann mund að verða búin að vernda þá sem eru veikastir fyrir og þá er kominn tími til þess að hugsa þetta upp á nýtt, hvernig komumst við best í veg fyrir að pestin breiðist út.“

Vísindamenn Íslenskrar erfðagreiningar sem sáu um gerð hermilíkananna. Á fundinum …
Vísindamenn Íslenskrar erfðagreiningar sem sáu um gerð hermilíkananna. Á fundinum sagðist Kári Stefánsson ekki geta lýst því með orðum hversu stoltur hann væri af vinnu þeirra. Frá vinstri: Kristján Eldjárn Hjörleifsson, Páll Melsted teymisstjóri og Sölvi Rögnvaldsson. mbl.is/Odd

Ekki kosningaþefur af áætlun stjórnvalda

Bólusetningaráætlanir stjórnvalda og áætlanir um að losa um allar samkomutakmarkanir innanlands 1. júní, hafa verið sagðar bera þess merki að kosningar séu í nánd. Kosið verður í september næstkomandi. 

Kári segist ekki sammála því og kveðst sannfærður um að bólusetningaráætlanir stjórnvalda miðist eingöngu útfrá því hversu mikið bóluefni er aðgengilegt íslenskum stjórnvöldum hverju sinni en ekki vegna einhverra annarra markmiða einstakra stjórnmálamanna.

Hvað sem því líður segist Kári aðspurður að hann voni að stjórnvöld geti nýtt sér þær upplýsingar sem kynntar voru í dag við ákvarðanatöku um bólusetningar á komandi misserum. 

„Ég held að það væri afskaplega óskynsamlegt að nýta þetta ekki og ég hef enga ástæðu til þess að trúa því að þau geri það ekki.“

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert