Skynsamlegt að endurskoða fyrirkomulagið

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sat blaðamannafund í húsakynnum Íslenskrar erfðagreiningar í …
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sat blaðamannafund í húsakynnum Íslenskrar erfðagreiningar í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að þær upplýsingar sem vísindamenn Íslenskrar erfðagreiningar kynntu í dag breyti engu um bólusetningaráætlun stjórnvalda og breyti ekki þeirri staðreynd að besta leiðin við bólusetningar hafi verið farin á sínum tíma. Hins vegar komi vel til greina að nýta þær í ákvörðunum um bólusetningar á komandi misserum. 

Téðar upplýsingar, sem kynntar voru á blaðamannafundi í húsakynnum Íslenskrar erfðagreiningar nú síðdegis, hverfast í meginatriðum um það að best væri að bólusetja yngri aldurshópa fyrst og síðan þá sem eldri eru, að því gefnu að meginmarkmið með bólusetningum sé að ná hjarðónæmi í samfélaginu.

Sú nálgun, sem var hins vegar farin þegar bólusetningar hófust hér á landi, var sú að vernda skyldi viðkvæma hópa fyrst og ná síðan hjarðónæmi með tíð og tíma.

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, sagði meðal annars við mbl.is eftir fundinn í dag að líklega væri skynsamlegast að breyta um stefnu hvað bólusetningar varðar þegar allir yfir sextugu hafa verið bólusettir.

Spurður um hvort upplýsingarnar sem kynntar voru í dag breyti nokkru um ágæti þeirra áætlana sem áður hefur verið stuðst við segir Þórólfur hins vegar að svo sé ekki. Það er ekki þar með sagt að þær komi ekki til með að gera það síðar.

„Nei, þetta er tvennt ólíkt. Bólusetningaráætlun stjórnvalda miðast bara við reglugerðina eins og hún er sett upp og eins og menn sjá fyrir sér að bóluefni muni berast hingað og þannig er þessi áætlun sett upp,“ sagði Þórólfur við mbl.is eftir blaðamannafundinn fyrr í dag. 

„Þetta er í raun allt annað,“ segir Þórólfur um rannsóknir vísindamanna ÍE. „Þarna er verið að kanna áhrifin, hvernig er best að bólusetja og hverja og hvaða árangri mun það skila, hvaða árangur er bestur og hverju mun það ná fram og svo framvegis. Þannig að þetta er svona tvennt ólíkt.“

kári sannfærður um að stjórnvöld nýti sér upplýsingarnar

Kári Stefánsson sagði þó að hann vonaðist til þess að stjórnvöld nýttu sér þær upplýsingar sem kynntar voru í dag, við ákvarðanatöku um bólusetningar á komandi misserum. Raunar sagði hann að óskynsamlegt væri að gera það ekki og sagðist ekki trúa því að svo yrði. 

Þórólfur var viðstaddur fundinn í dag ásamt Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra og Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra, og spurðu þau ákaft eftir fundinn, hrósuðu vísindamönnum ÍE fyrir góðar rannsóknir og þökkuðu fyrir að fá aðgang að þeim upplýsingum sem kynntar voru.

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar á fundinum.
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar á fundinum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þórólfur sagði samt eftir fundinn að sú leið sem farin var, þegar bóluefni við kórónuveirunni tóku fyrst að berast til landsins í desember síðastliðnum, hafi verið sú rétta miðað við stöðuna á þeim tíma. Vel megi vera að sú nálgun breytist, en sú ákvörðun sé þó að lokum í höndum stjórnvalda.

„Það eru auðvitað stjórnvöld sem ákveða reglugerðina. Í mínum huga hefur alltaf verið ljóst hvernig væri best að bólusetja, það er að ef við fáum lítið af bóluefni eins og hefur verið að tínast í okkur að þá hefur mér þótt skynsamlegast bólusetja viðkvæmu hópana fyrst sem fara verst út úr sýkingunni. 

Ef við hefðum bara fengið nóg af bóluefni þá hefði verið mjög skynsamlegt að byrja á þeim hópum sem dreifa veirunni hvað mest, ég held að það hefði verið besta nálgunin. Og mér sýnist svona niðurstöðurnar hjá þeim sýna það líka að það væri mjög áhrifaríkt að taka sérstaklega þennan miðhóp eða yngsta hópinn fyrst, það er að segja þann hóp sem dreifir veirunni hvað mest.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert