Úthlutun lóða í Hamranesi lokið

Horft yfir hverfið.
Horft yfir hverfið. Ljósmynd/Aðsend

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar staðfesti á fundi sínum í gær úthlutun á síðustu lóðunum í Hamranesi, 25 hektara nýbyggingarsvæði sem tekið er að rísa sunnan Skarðshlíðarhverfis og Vallahverfis í Hafnarfirði. Framkvæmdir við lóðir í Hamranesi hófust í upphafi árs og mun þar rísa hátt í 1.800 íbúða hverfi á næstu mánuðum og árum. Áætlaður íbúafjöldi er rúmlega 4.000.

Síðustu lóðirnar í Skarðshlíðarhverfi seldust í upphafi árs en þar mun rísa byggð með allt að 500 íbúðum og 1.250 íbúum, að því er fram kemur í tilkynningu frá Hafnarfjarðarbæ.

Samanlagt er áætlað að íbúafjöldi beggja hverfa verði um 5.300 í um 2.300 íbúðum. Í Vallahverfi sem stendur næst þessum hverfum búa rétt rúmlega 5.700 íbúar í dag. Þannig er gert ráð fyrir að heildarfjöldi á þessu svæði sunnan Reykjanesbrautar yst í Hafnarfirði tvöfaldist á næstu árum. 

„Við höfum lagt allt kapp á að hraða skipulagsvinnu, gatnagerð og uppbyggingu á þessu fallega nýbyggingarsvæði okkar Hafnfirðinga til að svara mikilli eftirspurn eftir lóðum og húsnæði í Hafnarfirði. Það er ljóst að hugur margra leitar heim í Hafnarfjörð,“ segir Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar.

mbl.is