Kemur til greina að boða holt og bolt

Ný hermilíkön þriggja vís­inda­manna Íslenskr­ar erfðagrein­ing­ar um hjarðónæmi kynnt í …
Ný hermilíkön þriggja vís­inda­manna Íslenskr­ar erfðagrein­ing­ar um hjarðónæmi kynnt í gær. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir fylgdist með. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kostir bólusetningar eru tvíþættir, annars vegar er um einstaklingsbundna vernd vegna Covid-19 að ræða og hins vegar næst hjarðónæmi gegn veirunni með bólusetningu þorra landsmanna. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir vel koma til greina að bólusetja tilviljanakennt eftir að forgangshópar hafa að minnsta kosti fengið fyrri sprautuna.

Kári Stef­áns­son, for­stjóri Íslenskr­ar erfðagrein­ing­ar, sagði á blaðamannafundi í gær að líklega væri best að breyta um stefnu í bólu­setn­ing­um hér á landi þegar búið verður að bólu­setja alla yfir 60 ára aldri. Þá verður jafn­vel skyn­sam­legt að bólu­setja yngri fyrst eða bólu­setja af handa­hófi.

„Þegar við erum búin að ná þessum hópum sem eru skilgreindir í reglugerðinni förum við út í almenning,“ segir Þórólfur og heldur áfram:

„Þá þurfum við að skoða hvort við förum í tilviljanakennt úrtak þar; förum þá ekki endilega eftir aldri heldur boðum holt og bolt í bólusetninguna,“ segir Þórólfur. „Það kemur sterklega til greina að gera það.“

Hann býst við áframhaldandi góðum gangi í bólusetningum og segir engan hiksta í afhendingu þeirra. Því geti landsmenn verið vongóðir um að bólusetningar muni halda áfram af svipuðum krafti og síðustu daga og vikur.

mbl.is