„Þú ert númer 156669 í röðinni!“

Bólusetningar gegn Covid-19 hafa gengið hratt undanfarið og er útlit …
Bólusetningar gegn Covid-19 hafa gengið hratt undanfarið og er útlit fyrir að þær geri það áfram. mbl.is/Kristinn Magnússon

Vefsíðan „Aldursröð“ sem gefur fólki sem er ekki í sérstökum forgangshópum tilfinningu fyrir því hvar í bólusetningarröðinni það stendur fór í loftið í febrúarmánuði. Tölvunarfræðingurinn Yngvi Þór Sigurjónsson setti vefsíðuna á fót þegar hann langaði að vita hvar í röðinni foreldrar hans, sem eru á sjötugsaldri væru. 

„Þetta er reiknað út frá afmælisdögum. Síðan finnur þá bara út hversu margir eru fæddir á undan þér og svo er giskað út frá því hvernig staðan er í hverjum aldurshópi, hversu stór hluti hefur verið bólusettur í hverjum aldurshópi,“ segir Yngvi í samtali við mbl.is. 

„Þetta er alls ekki nákvæmt, ef fólk er í einhverjum forgangshópi hefur þetta ekkert með það að gera. Ég bjó þessa síðu til vegna þess að ég var að spá í þetta sjálfur fyrir foreldra mína, hvenær kæmi að þeim. Mér fannst upplýsingarnar á Covid.is eiginlega ekki segja manni neitt. Það er reyndar búið að bæta þær síðan.“

Keyrir upplýsingarnar inn handvirkt

Yngvi keyrir nýjar tölur yfir bólusetningar inn á síðuna handvirkt þegar þær eru uppfærðar á Covid.is. Hann segir illmögulegt fyrir almennan borgara að útbúa nákvæmari vél en þetta þar sem hann hafi ekki forsendur til að meta það hverjir séu í forgangshópum.

„Landlæknir er náttúrulega búinn að skilgreina forgangshópana og veit í hvaða forgangshópi fólk er. Ef þeir vildu gætu þeir sagt þér hvar þú ert í röðinni,“ segir Yngvi. 

Blaðamaður er fæddur í desembermánuði árið 1996 og er því býsna aftarlega í röðinni. Samkvæmt síðunni, sem miðar við nýjustu upplýsingar um bólusetningar á Covid.is:

„Þú ert númer 156669 í röðinni! 264360 eru fæddir á undan þér, þar af eru 107691 þegar bólusettir.“

Til gamans gert

Á vefsíðunni er skýrt tekið fram að upplýsingarnar séu settar fram til gamans. Þá miðast tölurnar á síðunni við þá sem hafa fengið alla vega einn skammt af bóluefni.

Þar sem upplýsingar um bólusetningar aldursflokka innihalda bara hlutföll en ekki nákvæmar tölur, eru allar tölur um fjölda bólusettra reiknaðar til baka úr hlutföllunum og fjölda einstaklina sem eru fæddir á því tímabili. Það er jafnframt ekki vitað við hvað landlæknir miðar þegar aldur er flokkaður,“ segir á síðunni og jafnframt:

„Hér er miðað við aldur á degi upplýsingargjafar en líklega er flokkun hjá landlækni miðuð við einhvern fastan dag. Til þess að finna að lokum hvar í röðinni þú ert þá er gert ráð fyrir því að bólusetningum sé jafn dreift innan þíns aldursflokk, en það er samt líklegra að þeir sem eru í eldri kantinum í flokknum fái bólusetningu fyrst.“

mbl.is

Bloggað um fréttina