Flest slys hjá fólki sem er að byrja að hjóla

mbl.is/Kristinn Magnússon

Skráð slys á reiðhjóli hjá Samgöngustofu síðasta áratuginn eru samtals eitt þúsund. Þegar bætt er við slysum á rafhjólum, rafmagnshlaupahjólum eða öðrum rafmagnstækjum hækkar sú tala í 1.171, en flest slysanna á rafmagnsfarartækjunum eru á síðustu fjórum árum. Í fyrra varð talsverð fjölgun, en það er ekki síst rekið til aukinnar notkunar á rafmagnshlaupahjólum.

Gunnar Geir Gunnarsson, deildarstjóri öryggis- og fræðsludeildar hjá Samgöngustofu, segir að taka verði þessum tölum með nokkrum fyrirvara. Þær byggist á tölum út frá skráningu lögreglu, en vitað er að í mjög mörgum tilfellum sé lögregla ekki látin vita þegar slys eiga sér stað. Nefnir hann sem dæmi að ef hjólreiðamaður detti og handleggsbrotni, þá fari flestir beint upp á spítala en tilkynni ekki slysið. Líklegast sé að tilkynnt sé um slys ef bifreiðar séu hluti af því. Slysin séu því að öllum líkindum mun fleiri en þarna komi fram.

Slysum fækkað hlutfallslega

Hann segir að þróunin milli 2016 og 2019 hafi verið jákvæð og þá hafi slysum í þessum flokki í heild fækkað. Í fyrra hafi hins vegar komið ansi mikið stökk í skráðum tilvikum, en rekja má það að mestu til fjölgunar í slysum á rafmagnsfarartækjum.

Gunnar segir að ekki hafi verið gerð nein eiginleg rannsókn á þessum slysum, en tilfinning manna sé að slysum sé að fækka hlutfallslega miðað við aukningu í notkun reiðhjóla. Flest slysin séu hjá fólki sem er að byrja að nota fararmátann og það endurspeglist til dæmis í aukinni nýliðun á árunum fyrir 2016 og svo aftur í fyrra þegar faraldurinn skall á. Helst þetta nokkuð í hendur við tölur um innflutning á reiðhjólum, líkt og sjá má í annarri umfjöllun sem var í Hjólablaðinu sem fylgdi Morgunblaðinu á föstudaginn.

Graf/mbl.is

Telur hann að slysum á rafhlaupahjólum muni einnig fækka hlutfallslega með tímanum þegar fólk er orðið vanara þeim samgöngumáta.

Sjá sambærilega þróun og hjá ökumönnum bifhjóla

Segir Gunnar að þetta sé í takt við það sem sjáist annars staðar í umferðinni. Nefnir hann sem dæmi að flest umferðarslys á bifreiðum verði hlutfallslega hjá yngsta aldurshópnum, sem jafnframt er nýlega kominn með ökuleyfi. Þá nefnir hann að á árunum sem leiddu upp að fjármálahruninu árið 2008 hafi nýskráningum bifhjóla fjölgað mikið og á sama tíma hafi slysum í þeim flokki fjölgað umtalsvert. Þar hafi margir verið að stíga sín fyrstu skref á slíkum tækjum. Eftir hrun hafi bifhjólum ekki fækkað en nýskráningar hrapað. Með aukinni reynslu þessa hóps hafi slysum svo aftur tekið að fækka og segir Gunnar að þetta sé til marks um að slys séu almennt algengust hjá þeim hópum sem eru að koma nýir inn.

„Almennt sýnist okkur þróunin vera jákvæð og að hver og einn hjólreiðamaður sé að verða öruggari í umferðinni,“ segir Gunnar og bætir við: „Ökumenn eru einnig að verða vanari hjólreiðafólki og hjólreiðafólk að verða reyndara í umferðinni.“

Slysum á raffarartækjum tók að fjölga fyrir nokkrum árum

Eins og meðfylgjandi tafla sýnir fjölgaði slysum á reiðhjólum nokkuð fram til ársins 2017. Eftir það varð fækkun þangað til í fyrra þegar metfjöldi var skráður, eða 122 slys. Hlutfall alvarlegra slysa helst nokkuð í hendur við þessa þróun, en slysum á raffarartækjum tekur að fjölga fyrir nokkrum árum og springa svo út í fyrra, á sama tíma og innflutningur á bæði rafhjólum og sérstaklega rafhlaupahjólum margfaldast. Þannig telja slys á slíkum tækjum í tölum Samgöngustofu 60 í fyrra á móti 104 á hefðbundnum reiðhjólum. Árið áður hafði hlutfallið verið 87 slys á reiðhjóli og 14 á rafmagnsfarartækjum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »