Hraunrennsli merkilega stöðugt

Kortið var unnið með aðstoð Þorvaldar Þórðarsonar, prófessors í eldfjallafræði.
Kortið var unnið með aðstoð Þorvaldar Þórðarsonar, prófessors í eldfjallafræði. Kort/Sigurður Sigurðsson

Eldgosið í Geldingadölum hefur nú staðið í sex vikur og engin merki eru um að farið sé að draga úr eldvirkni. Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur segir að hraunrennslið í gosinu hafi verið merkilega stöðugt allan þann tíma. Meðalrennsli frá því gos hófst er um 5,6 rúmmetrar á sekúndu og rennslið hefur aldrei vikið meira en 40% frá því.

Þótt aðeins sé einn gígur gossins virkur af þeim sex sem eru á svæðinu er það ekki til marks um það að farið sé að hægja á kvikustreymi, segir hann. „Það eru engin merki um að kvika sé að safnast saman í jarðskorpunni,“ útskýrir Magnús Tumi. Þess í stað streymi hún beint upp á yfirborð. Hinir ólíku gígar sem myndast hafa eru aðeins blátoppurinn á jarðskorpunni, en undir niðri er rennslið nokkuð stöðugt. Því sé ekki víst að hinir gígarnir séu kulnaðir þótt ekkert streymi úr þeim núna. Magnús líkir streyminu við vatn sem flæðir út um götótta garðslöngu. Sé lokað fyrir eitt gat flæði bara meira vatn út um hin götin.

Magnús Tumi segir að gos geti hætt snögglega ef einhver hreyfing í jarðskorpunni veldur þrýstingsbreytingum. Líklegra sé þó að dragi hægt og rólega úr hraunflæðinu. Segir hann nærtækast að líta til Surtseyjargossins, sem stóð í þrjú og hálft ár. Kvikuflæðið þar var að vísu mun meira í upphafi en í gosinu við Fagradalsfjall, en síðar fór að draga úr flæðinu mjög rólega þar til því lauk loks í júní 1967.

Hraunið þekur orðið um 1,13 ferkílómetra og er rúmmál þess um 18,5 milljónir rúmmetra.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert