Læknafélagið mótfallið afglæpavæðingu

Mynd úr safni, tekin í Frú Ragnheiði – skaðaminnkunarbíl Rauða …
Mynd úr safni, tekin í Frú Ragnheiði – skaðaminnkunarbíl Rauða krossins. mbl.is/Valgarður Gíslason

Læknafélag Íslands leggst eindregið gegn því að frumvarp heilbrigðisráðherra um afglæpavæðingu neysluskammta af fíkniefnum verði samþykkt. Þetta kemur fram í umsögn félagsins um frumvarpið, sem liggur fyrir þingi.

Verði frumvarpið að lögum verður ekki lengur refsivert að hafa á sér svokallaða neysluskammta af fíkniefnum, en stærð þeirra verður ákveðin með reglugerð. Þá má lögregla ekki gera upptæk efni sem eru í vörslu fullorðinna og falla undir skilgreindan neysluskammt. Sala, dreifing og framleiðsla fíkniefna verður þó eftir sem áður ólögleg.

Gangi gegn markmiðum um að draga úr aðgangi

Skiptar skoðanir eru um frumvarpið, en meðal umsagnaraðila sem mælast gegn því að frumvarpið verði samþykkt eru embætti ríkislögreglustjóra og Alþjóðlega góðtemplarahreyfingin (IOGT). Frumvarpið nýtur hins vegar stuðnings Rauða krossins, Barnaheilla og Afstöðu – félags fanga.

Í umsögn Læknafélagsins segir að fíkniefnaneysla, ekki síst ungs fólks, sé alvarlegur vandi sem þurfi að bæta úr með auknum meðferðarúrræðum og fjármagni til slíkra verkefna. Frumvarpið í núverandi mynd gangi hins vegar gegn markmiðum um að draga úr aðgengi að ávana- og fíkniefnum.

Í umsögn Ríkislögreglustjóra er tekið undir með „þeirri hugsun“ að brýnt sé að snúa af braut harðra refsinga fyrir neyslu fíkniefna og leggja áherslu á forvarnir og lýðheilsu. Engu að síður geti embættið ekki stutt frumvarpið í núverandi mynd og kallað er eftir því að áfram verði refsað fyrir vörslu fíkniefna sem bent er á að sé refsiverð á öðrum Norðurlöndum og í flestum ríkjum Vestur-Evrópu.

Verkefni heilbrigðiskerfis ekki dómskerfis

Það kveður við annan tón í umsögn Rauða krossins. Þar er frumvarpi heilbrigðisráðherra fagnað og bent á að Rauði krossinn styðji þá stefnu að meðhöndla vímuefnanotendur í heilbrigðiskerfinu fremur en í dómskerfinu.

Rauði krossinn heldur úti skaðaminnkunarverkefninu Frú Ragnheiði, sem aðstoðar jaðarsetta hópa svo sem fólk í vímuefnavanda og heimilislausa, en verkefnastýra Frú Ragnheiðar hefur áður bent á að skjólstæðingar hennar treysti lögreglunni illa og lítið samstarf sé milli hennar og lögreglu.

Í umsögninni er því einnig fagnað að kaup á neysluskömmtum verði afglæpavædd enda sé það óhjákvæmilegur þáttur vímuefnanotenda til að útvega sér efni í flestum tilvikum.

Afstaða – félag fanga tekur í sama streng. Í umsögn félagsins segir að frumvarp ráðherra sé skref í átt til meiri mannúðar og skaðaminnkunarstefnu í málefnum vímuefnanotenda. „Refsingar fyrir smávægileg vímuefnabrot geta eingöngu orðið til þess að fólk með vímuefnavanda festist í viðjum vímuefna til langframa,“ segir í umsögninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert