„Minnti mig á rándýr“

„Ég lít á mig sem sigurvegara; ég stóð þetta þó af mér. Ég veit nú úr hverju ég er gerð og vil nýta reynsluna til góðs,“ segir Herdís Anna Þorvaldsdóttir sem lifði af manndrápstilraun á heimili sínu í júní í fyrra, en maður sem leigði hjá henni stakk hana ellefu sinnum.

„Sjáöldur augna hans voru svo þanin af neyslu að hann minnti mig á rándýr. Þá man ég eftir náttúrulífsmynd, og ég heyrði bara nánast röddina í Attenborough segja frá dýrategund sem leikur sig lífvana til að minnka árásarhneigð rándýrsins. Ég átti ekki mikinn séns þegar þarna var komið sögu. Ég var orðin mikið slæpt og það var ekki margt í stöðunni,“ segir Herdís sem var þá mikið skorin og blóðug og farin að missa blóð og mátt.

Herdís Anna Þorvaldsdóttir lifði af fólskulega árás.
Herdís Anna Þorvaldsdóttir lifði af fólskulega árás. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Herdís segir sögu sína í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. Hún segist hafa upplifað brotalamir í kerfinu, en ítrekað var reynt að halda því fram að hún hefði ekki verið lífshættulega slösuð. Einnig bendir Herdís á að gerandinn átti sér langa afbrotasögu og hafði tveimur mánuðum áður haldið manni í gíslingu og barið með kúbeini. Engu að síður gekk hann laus.

Herdís vill sjá breytingar og bætt réttindi fyrir brotaþola. Hún segir almenning eiga rétt á að vita um hættulega síbrotamenn sem ganga lausir.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert