Endurmeta stærð hættusvæðisins við gosið

mbl.is/Einar Falur
Í ljósi breyttrar virkni eldgossins í Geldingadölum er verið að endurmeta stærð hættusvæðisins við gosið. Eins og áður hefur verið greint frá urðu töluverðar breytingar á gosvirkni í nótt. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands.
„Kvikustrókavirkni sem hafði verið nokkuð stöðug undanfarna daga tók að sveiflast með þeim hætti að hún dettur niður í um 3 mínútur og eykst svo með miklum krafti með hærri strókum en áður hafa sést og stendur yfir í um 10 mínútur. Þessir taktföstu púlsar hafa einkennt gosið frá því klukkan 1 í nótt,“ segir í tilkynningunni. 

Óvíst hvað veldur

Þar kemur fram að vindátt hafi verið norðlæg í nótt en hún snerist í hæga austlæga átt um klukkan 6 í morgun.
„Nokkrum klukkustundum síðar verður vart við reyk í suðvesturhlíðum Geldingadals. Hugsanlega hefur heit gjóska úr gosstróknum borist með vindi suðvestur fyrir hraunbreiðuna um 300 metra leið og kveikt í og veldur nú sinubruna sem sést á vefmyndavél Rúv,“ segir í tilkyningunni og jafnframt:
 
„Ekki er ljóst hvað veldur þessum breytingum í gosvirkni, en ekki er hægt að útiloka að breytingar hafi orðið í kvikuflæði, efnasamsetningu kviku/gass eða að breytingar hafi orðið í aðfærslukerfinu.“
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert