Full vél af bólusettum ferðamönnum í Keflavík

Flugvél Delta lenti um áttaleytið í morgun.
Flugvél Delta lenti um áttaleytið í morgun. Ljósmynd/Sigurður Unnar Ragnarsson

Flugvél flugfélagsins Delta lenti á Keflavíkurflugvelli snemma í morgun nánast full af bólusettum Bandaríkjamönnum sem komnir eru hingað til lands í frí. 

Það má segja að þetta sé fyrsta „alvöru“-flugvélin með ferðamönnum, sem kemur hingað til lands, frá því kórónuveirufaraldurinn hófst fyrir rúmu ári. Hingað til hafa hálftómar vélar komið hingað til lands með örfáa ferðamenn í einu. 

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.
Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Upphaf nýs ferðasumars?

Delta mun fljúga daglega frá New York í allt sumar, daglega frá Boston frá og með 20. maí og daglega frá Minneapolis frá og með 27. maí. Alls getur Delta flutt 554 farþega daglega hingað til lands þegar allt er komið á fullan snúning og miðað við t.d. 90% sætanýtingu eru það um 500 á dag, eða 15 þúsund á mánuði.

„Já, mér er sagt að það hafi verið eitthvað um 80% sætanýting í vélinni,“ segir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar. Jóhannes segir að þetta marki ef til vill upphaf nýs ferðasumars. 

„Það er mjög gaman að sjá að það séu farnir að koma erlendir ferðamenn til landsins. Þetta er svona kannski fyrsta helgin þar sem við erum að sjá lendingarfjölda sem er eitthvað í líkingu við það sem við höfum séð undanfarna mánuði eins og í kringum jólin eða slíkt. 

Munurinn er hins vegar að nú er kannski mun meira af eiginlegum ferðamönnum í þeim vélum sem eru að lenda í Keflavík.“

Bólusettur Bandaríkjamaður í Leifsstöð.
Bólusettur Bandaríkjamaður í Leifsstöð. Ljósmynd/Sigurður Unnar Ragnarsson

Á brattann að sækja en ljósið við enda ganganna orðið bjartara

Þrátt fyrir að Jóhannes segir að fagnaðarefni sé að ferðamenn séu hér farnir að koma í stórum stíl megi samt ekki gleyma að enn sé staðan erfið hjá fjölmörgum fyrirtækjum í ferðaþjónustu. 

„Já, það verður á brattann að sækja í sumar og haust og þetta verður ansi erfið brekka fyrir marga. Sérstaklega líka af því að það njóta ekki öll fyrirtæki góðs af þeim vélum sem eru að koma núna. En ljósið við enda ganganna sést mun betur nú en það gerði fyrir til dæmis tveimur mánuðum síðan.“

Jóhannes bætir við að vegna þess að Bandaríkjamönnum með mótefna-, bóluefnavottorð eða hvort tveggja er hleypt inn til landsins þýði það að ferðasumarið hefjist fyrr en annars hefði verið. Eins og áður sagði hyggst Delta hefja daglegt áætlanaflug til landsins síðar í mánuðinum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert