Fyrstu hóparnir mættir á hæsta tind landsins

Sirrý Ágústsdóttir (t.v.) upphafskona Lífskrafts er komin á topp Hvannadalshnúks, …
Sirrý Ágústsdóttir (t.v.) upphafskona Lífskrafts er komin á topp Hvannadalshnúks, sem konurnar kalla Kvennadalshnúk, og fagnar hér áfangasigri í vegferð sem hófst með stofnun Lífskrafts fyrir um tveimur árum síðan. Hér er hún á toppnum með Snjódrífunni Birnu Bragadóttur.
Fyrsti hópur Lífskrafts kvenna komst á tind Hvannadalshnúks nú klukkan rúmlega sjö í morgun. Auður Elva Kjartansdóttir leiddi fyrstu línu og gerði sér lítið fyrir og stóð á haus af þessu tilefni, á hæsta tindi landsins. Þetta er 79. ferð Auðar Hvannadalshnúk á 20 árum sem leiðsögukona á Hnúkinn.
Auður gerði sér lítið fyrir og stóð á haus á …
Auður gerði sér lítið fyrir og stóð á haus á hæsta tindi landsins. Ljósmynd/Aðsend

„Veður var gott á leiðinni í nótt en ansi kalt en leiðangurinn lagði af stað klukkan ellefu í gærkvöldi. Útsýnið var stórkostlegt þegar fyrsta lína komst á tindinn,“ sagði Auður fyrir skömmu þegar fyrsti hópur var að búa sig undir að leggja af stað niður af Hnúknum.

Góð stemmning og fullkomið veður

Konurnar, sem ætla að toppa Hnúkinn til þess að safna fyrir nýrri krabbameinsdeild sem meðal ann­ars styrk­ir skjól­stæðinga styrkt­ar­fé­lag­anna LÍF og Krafts, eru 126 talsins. Um er að ræða sögulega stund þar sem aldrei hafa jafn margar konur gengið upp á hæsta tind landsins samtímis.

Nú þegar eru tæplega 30 konur komnar upp á topp og eru fyrstu hóparnir á leiðinni niður. Að sögn Soffíu S. Sigurgeirsdóttur, eins leiðangursstjóra, er virkilega góð stemmning í hópnum og veðrið fullkomið. Konurnar höfðu frestað göngunni um sólarhring vegna veðurs á laugardag og segir Soffía að þær séu ánægðar með að hafa gert það vegna þess að í dag sé ekki skýjahnoðri á himni. 

Soffía hvetur landsmenn til þess að styrkja verkefnið, hver einasta króna skipti máli í þessum efnum. Öll áheit renna óskert til krabbameinsdeildar Landspítala.

Hægt er að styrkja söfn­un­ina með því að leggja inn á reikn­ing 1161-26-9900, kt. 501219-0290, eða með því að senda á síma­núm­erið 789-4010 í AUR-app­inu.

Einnig er mögulegt að styðja við Lífskraft með því að senda SMS í símanúmerið 1900

* Sendið textann LIF1000 fyrir 1.000 kr.
* Sendið textann LIF3000 fyrir 3.000 kr.
* Sendið textann LIF5000 fyrir 5.000 kr.
* Sendið textann LIF10000 fyrir 10.000 kr.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert