Mörg hundruð ný störf á vellinum í sumar

Stækkun flugvallarins er í fullum gangi. Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia, …
Stækkun flugvallarins er í fullum gangi. Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia, og Brynjólfur Guðmundsson, framkvæmdastjóri VSS, undirrituðu samninginn í dag. Ljósmynd/Isavia

Isavia undirritaði í dag samning við Verkfræðistofu Suðurnesja um framkvæmdaeftirlit og ráðgjöf vegna nýrrar viðbyggingar við Flugstöð Leifs Eiríkssonar.

Framkvæmdir hefjast á næstu vikum og eru hluti af vinnu við stækkun flugstöðvarinnar og umbótum á Keflavíkurflugvelli í framhaldi af hlutafjáraukningu ríkisins í Isavia. 

Mörg hundruð ný störf verða til í sumar í tengslum við fyrirhugaðar framkvæmdir, sem undirbúnar hafa verið á síðustu mánuðum með útboðum og verðkönnunum. 

VSS kemur einnig að öðrum verkefnum

Stækkun austurbyggingar flugstöðvarinnar er viðamesta framkvæmdin. Þrjú tilboð bárust í framkvæmdaeftirlit og tilheyrandi ráðgjöf í tengslum við þær og var lægsta tilboðið frá Verkfræðistofu Suðurnesja (VSS), 200 milljónir króna. Aðrir sem buðu í verkið voru JT Verk og Hnit. 

Tilboð VSS var samþykkt og í dag undirrituðu Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia, og Brynjólfur Guðmundsson, framkvæmdastjóri VSS, samninginn, sem er ekki eingöngu bundinn við fyrsta áfanga austurbyggingar Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar.

Því mun VSS mögulega einnig koma að eftirliti og ráðgjöf vegna annarra verkefna sem eru á döfinni á Keflavíkurflugvelli á komandi mánuðum.

mbl.is