Segir Katrínu gera lítið úr orðum seðlabankastjóra

Logi Einarsson og Katrín Jakobsdóttir tókust á í þinginu í …
Logi Einarsson og Katrín Jakobsdóttir tókust á í þinginu í dag. Samsett mynd

Logi Einarsson þingmaður Samfylkingar taldi Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra hafa gert lítið úr orðum seðlabankastjóra þess efnis að landinu sé stýrt af sérhagsmunaöflum, þar sem hún hafi beðið um dæmi um slíkt.

Í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag spurði hann Katrínu hvort embætti héraðssaksóknara hafi fjárhagslegt bolmagn til þess að sinna rannsókn Samherjamálsins og skírskotaði til frétta sem bárust í morgun um niðurstöðu norska fjármálaeftirlitsins.

„Fyrir tveimur árum síðan áttum við forsætisráðherra orðastað um aðgerðir ríkisstjórnarinnar í kjölfar sláandi birtingar gagna um starfsemi Samherja í Namibíu og þá áhættu sem skapast gæti fyrir orðspor íslands,“ en forsætisráðherra hafi svarað því til að þau mál væru í skoðun.

„Spurningin er: Hvað hefur verið gert síðan þá?“ spurði Logi og spurði enn fremur hvort héraðssaksóknari hefði nægilegt fjárhagslegt bolmagn til þess að takast á við rannsóknir af sama krafti og í Noregi.

Ísland fljótt af gráa listanum

Katrín svaraði Loga: „[...] Það er auðvitað svo að íslensk stjórnvöld hafa gripið til margháttaðra aðgerða til að tryggja betur varnir gegn peningaþvætti.

Það var svo að þau mál höfðu allt of lengi verið látin reka á reiðanum. Þó að gripið hafi verið til aðgerða var ekki nógu hratt brugðist við þannig að Ísland lenti um tíma á hinum gráa lista FATF sem við ræddum nú hér í þessum sal en við vorum um leið mjög fljót af honum aftur vegna þess einmitt að við höfum verið að grípa til ráðstafana.“

Nefndi hún í því samhengi gagnsæi í íslensku atvinnulífi sem tryggt var með skráningu raunverulegra eigenda, sem hafi verið þjóðþrifamál, auk sameiningar Seðlabanka og Fjármálaeftirlitsins:

„Ýmislegt hefur verið gert á þessu sviði. Ég vil síðan segja því háttvirtur þingmaður spyr hér um Fjármálaeftirlitið.

Þá samþykkti Alþingi lög um sameiningu Seðlabanka og Fjármálaeftirlitsins. Það er mitt mat og margra annarra, þar á meðal seðlabankastjóra, að þessi sameining hafi verið til að styrkja þessar tvær stofnanir og gera þeim betur kleift að takast á við eftirlitshlutverk sitt,“ sagði hún og bætti við að slíkt myndi styrkja betur annars konar eftirlitsverkefni líkt og þau sem eru á hendi gjaldeyriseftirlitsins. 

„Ég tel að ýmislegt hafi verið gert og ég tel að þessi sameining hafi verið til þess að styrkja hið mikilvæga eftirlitshlutverk sem um ræðir,“ sagði Katrín.

„Nú hefur forsætisráðherra gert lítið úr þessum orðum“

„Herra forseti, ég er nú ósammála hæstvirtum ráðherra um það. En héraðssaksóknari hefur auk þess sagt að þau hefðu ekki nægt fjármagn [...],“ sagði Logi og bætti við að ríkisstjórnin hefði lagt niður embætti rannsóknarstjóra í núverandi mynd og veikt neytendavernd svo um munar.

„En herra forseti, hér hefur seðlabankastjóri stigið fram og talað um að landinu sé stýrt af hagsmunaöflum. Undir það hafa helstu hagfræðingar landsins tekið og forystufólk verkalýðshreyfingarinnar.

Forsætisráðherra gerði heldur lítið úr þessum orðum að mínu mati í síðustu viku og brást við með því að kalla eftir dæmum. Þá er mín spurning: hefur forsætisráðherra fengið einhver dæmi einhvers staðar og kallað eftir þeim?“

Þá svaraði Katrín að héraðssaksóknari fengi þær fjárheimildir sem hann þyrfti til þess að ljúka rannsókn Samherjamálsins og hún hefði fulla trú á því að embættið muni sinna sínu starfi af heilindum og eins vel og hægt er.

Trúir að flokkarnir láti ekki stjórnast af hagsmunaöflum

Katrín sagðist hafa kallað eftir dæmum vegna þess að hún telur að dæmin séu til um að hagsmunaaðilar beiti sér með ótæpilegum og óhóflegum hætti.

„En ég hef líka þá trú að flokkarnir hér á Alþingi séu vandari að virðingu sinni en svo að þeir láti stjórnast eingöngu af hagsmunaöflum.

Þess vegna segi ég að þegar sagt er að landinu sé stjórnað af hagsmunaöflum þá er væntanlega verið að segja svo að stjórnmálaflokkarnir hér séu allir undir stjórn hagsmunaafla. Ég fellst ekki á það en ég veit það hins vegar og háttvirtur þingmaður veit það vel að hagsmunaöfl reyna mjög oft að beita sér óhóflega fyrir ýmsum breytingum og málum.“

Af þeim sökum hafi hún beitt sér á Alþingi meðal annars með setningu laga gegn hagsmunaárekstrum til að tryggja gagnsæi um þessi mál.

 „En ég hef þá trú á stjórnmálum og stjórnmálamönnum að þeir láti ekki allir stjórnast af hagsmunaöflum því þá væri auðvitað verulega illa komið fyrir okkur ef svo væri,“ sagði Katrín að lokum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina