Skjálftar með stuttu millibili við Kötlu

Horft til vesturs yfir Mýrdalsjökul.
Horft til vesturs yfir Mýrdalsjökul. mbl.is/RAX

Nokkrir jarðskjálftar riðu yfir með skömmu millibili í Mýrdalsjökli í morgun. Mældust tveir þeirra 2,5 að stærð og sá þriðji var af stærðinni 1,9.

Bjarki Kaldalóns Friis, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofunni, segir í samtali við mbl.is að farið hafi verið yfir mælingar á stærð skjálftanna og þær staðfestar.

„Svo höfum við rennt yfir vatnagögnin, því við erum með mæli í Múlakvísl sem rennur suður úr jöklinum. Þar höfum við ekki séð neitt óeðlilegt enn sem komið er,“ segir Bjarki.

Dýptarmælingar ónákvæmar

Skjálftarnir mældust á aðeins rétt rúmlega tveggja mínútna bili.

„Þeir koma þarna mjög hratt, en það er svo sem ekkert óeðlilegt sem má túlka af því. Vorið er líka byrjað og þá flæðir meira vatn í kerfin. Svo getur auðvitað verið aukin jarðhitavirkni sem við sjáum engin merki um.“

Uppgefið dýpi jarðskjálftanna á vef Veðurstofunnar er 0,1 kílómetri en Bjarki segir að þær mælingar séu síður nákvæmar, sökum þess hve jökullinn er þykkur.

Katla liggur undir Mýrdalsjökli og er ein virkasta eldstöð landsins.
Katla liggur undir Mýrdalsjökli og er ein virkasta eldstöð landsins. mbl.is/Rax

Fylgjast vel með Mýrdalsjökli

Hann tekur fram að enginn órói hafi mælst.

„En við fylgjumst alltaf vel með Mýrdalsjökli, því það er stór eldstöð undir sem er ekki búin að gjósa í einhver hundrað ár.“

Sú eldstöð, Katla, nýtur þess vafasama heiðurs að vera eitt hættulegasta eldfjall landsins. Ástæður þess eru meðal annars jökulhlaupin sem gjarnan fylgja Kötlugosum og nálægð hennar við byggð.

Katla er ein virkasta eldstöð landsins og eru Kötlugos á sögulegum tíma orðin um 20 talsins. Þar af hefur gosið 18 sinnum á síðustu þúsund árum. Þá er miðað við gos sem náðu upp úr jöklinum og skildu eftir sig gjóskulag í nágrenni Mýrdalsjökuls.

Hafa hafist frá maí og fram í nóvember

Eldstöðin hefur gosið á 40 til 80 ára fresti á þessu tímabili og er stysta hvíld milli gosa 13 ár en sú lengsta, sem þekkt er með vissu, um 80 ár.

Þó kann að vera að allt að 95 ár hafi liðið á milli gosa fyrr á öldum. Lengsta goshlé Kötlukerfisins á sögulegum tíma varð eftir gos á fyrrnefndri sprungurein, Eldgjárgosið á 10. öld, en ekki er vitað um neitt gjóskulag frá Kötlu næstu 200 árin þar á eftir.

Kötlugos hafa staðið frá tveimur vikum upp í meira en fimm mánuði. Frá því um árið 1500 hafa öll Kötlugos hafist á tímabilinu frá í maí og fram í nóvember.

Skelfur undir Mosfellsheiði

Áfram heldur jörð að skjálfa undir Mosfellsheiði en mbl.is sagði í síðustu viku frá hrinu fjölmargra skjálfta þar norðvestur af Hengli.

„Þetta eru litlir smáskjálftar og vitum ekki alveg hvað veldur þessu,“ segir Bjarki um virknina þar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert