Skjálftar vestur af Kleifarvatni

mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Jarðskjálfti af stærð 3,2 varð klukkan 03:04 um 3 km vestur af Kleifarvatni. Skjálftinn fannst á höfuðborgarsvæðinu. Annar jarðskjálfti mældist á svipuðum slóðum klukkan 3:28 og var hann 2,8 stig. Einar Hjörleifsson, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að sennilega sé um svonefnda gikkskjálfta að ræða en þeir verða þegar spenna losnar sem myndast hefur sitt hvoru megin kvikugangs þannig að jarðskjálftarnir tengjast eldsumbrotunum við Fagradalsfjall.

wapp.is/Einar

Að sögn Einars hefur eldgosið verið svipað í nótt, kaflaskipt virkni, og undanfarinn sólarhring en kvikustrókavirkni sem hafði verið nokkuð stöðug undanfarna daga tók að sveiflast um eittleytið aðfararnótt sunnudags með þeim hætti að hún dettur niður í um 3 mínútur og eykst svo með miklum krafti með hærri strókum en áður hafa sést og stendur yfir í um 10 mínútur.  Strókarnir hafa náð allt að 300 metra hæð. Einar segir að ekki hafi orðið breyting á þessu í nótt og virknin áfram kaflaskipt. 

Ekki er ljóst hvað veldur þessum breytingum í gosvirkni, en ekki er hægt að útiloka að breytingar hafi orðið í kvikuflæði, efnasamsetningu kviku/gass eða að breytingar hafi orðið í aðfærslukerfinu. Í ljósi þessarar breyttu virkni er verið að endurmeta stærð hættusvæðis við gosstöðvarnar.

Vísindamenn á Veðurstofunni sendu frá sér tillögu í gær um að hættusvæði í Geldingadölum yrði miðað við 500 metra radíus frá gosinu í ljósi breyttrar virkni eldgossins. Eitthvað var um það í gær að gjóska hafi farið yfir það svæði þar sem fólk fylgdist með eldgosinu.

 „Ekki er ljóst hvað veldur þessum breytingum í gosvirkni, en ekki er hægt að útiloka að breytingar hafi orðið í kvikuflæði, efnasamsetningu kviku/gass eða að breytingar hafi orðið í aðfærslukerfinu,“ segir í tilkynningu Veðurstofunnar en að sögn Einars verður haldinn fundur með viðbragðsaðilum á svæðinu klukkan 9 þar sem staðan verður endurmetin. 

Spáin fyrir gosstöðvarnar frá því seint í gærkvöldi:

Breytileg átt 2-6 m/s á gosstöðvunum í nótt og berst gasið því í ýmsar áttir og gæti safnast fyrir á svæðinu nærri gosinu.

Norðan og noðvestan 3-8 á morgun (mánudag), en 5-10 síðdegis. Gasmengunin berst til suðurs og suðsuðausturs.
 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert